Erlent

Hafa tvö­faldað auð sinn á fjórum árum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jeff Bezos og Elon Musk eru í hópi ríkustu manna heims.
Jeff Bezos og Elon Musk eru í hópi ríkustu manna heims. Vísir/Getty

Fimm ríkustu menn í heimi hafa rúmlega tvöfaldað auð sinn frá árinu 2020. Á sama tíma hefur staða sextíu prósenta jarðarbúa versnað, en það eru næstum því fimm milljarðar manna. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam en skýrslan kemur út á sama tíma og ríkasta fólk heims kemur saman í Davos í Sviss á hinum árlega World Economic Forum fundi. 

Í skýrslunni segir einnig að ef fram heldur sem horfir muni ójöfnuður í heiminum halda áfram að aukast og ljóst sé að ekki muni takast að útrýma fátækt á jörðinni næstu þrjúhundruð árin ef ekkert er að gert.

 Fimmenningarnir, þeir Elon Musk, Bernards Arnault, Jeff Bezos, Larry Ellison og Mark Zuckerberg hafa aukið við auð sinn á tímabilinu um tæpa 470 milljarða bandaríkjadala og eiga nú samtals 869 milljarða dala, eða rúmar 119 billjón krónur. Þá hafa eignir fátækustu 60 prósent jarðarbúa rýrnað um 0,2 prósent.

Stórfyrirtæki heimsins hafa sömuleiðis orðið ríkari á síðustu árum á sama tíma og heimilin líða skort. 148 stærstu fyrirtæki heims höfðu sankað að sér 1,8 billjörðum Bandaríkjadala í hreinan hagnað í júlí á síðasta ári, sem er 52 prósent meira en meðalhagnaður á árunum 2018 til 2021. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×