Fagfélögin, sem saman standa af Rafiðnaðarsambandi Íslands, MATVÍS og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, semja fyrir um 70 prósent iðn- og tæknifólks á almennum vinnumarkaði á Íslandi.
Fram kemur í tilkynningu frá félögunum að Samtök atvinnulífsins hafi lagt á það áherslu að þau myndu slást í för með breiðfylkingunni sem nú semur. Félögin telja þó að áhersla breiðfylkingarinnar á krónutöluhækkanir þjóni ekki hagsmunum Fagfélaganna.
Í tilkynningu á vef MATVÍS er haft eftir Benóný Harðarsyni, sem fer fyrir samninganefnd Fagfélaganna, að þrír samningafundir við SA hafi litlu skilað. Fagfélögin leggi nú mesta áherslu á hóflegar launahækkanir með rauðum strikum, sem stuðla eigi að lækkun stýrivaxta.
„Ríkur vilji [er] til að leita allra leiða til að knýja á um kjarabætur með hætti sem þjónar hagsmunum iðn- og tæknifólks. Vísun deilunnar til sáttasemjara er liður í þeirri viðleitni.“