Handbolti

Mögu­lega dregið um hvort Ís­land fari á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og félagar hans í íslenska landsliðinu mæta Ungverjum í lokaleik C-riðils Evrópumótsins í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon og félagar hans í íslenska landsliðinu mæta Ungverjum í lokaleik C-riðils Evrópumótsins í kvöld. vísir/vilhelm

Ef að Serbía vinnur Svartfjallaland í kvöld, 30-29, og Ísland tapar fyrir Ungverjalandi 27-26, þá enda Ísland og Serbía nákvæmlega jöfn í 2.-3. sæti C-riðilsins á EM karla í handbolta.

Verði þetta niðurstaðan, það er að segja að Ísland tapi með akkúrat einu marki og Serbía vinni með einu marki, og að Serbía skori jafnframt fjórum mörkum meira en Ísland í kvöld, verða liðin nefnilega bæði með þrjú stig, jafnmörg mörk skoruð á mótinu og jafnmörg fengin á sig.

Aðeins ef þetta yrði niðurstaðan þyrfti að draga um það hvort liðanna færi áfram í milliriðla. Ekki kemur fram í reglum EHF nákvæmlega hvar og hvenær yrði dregið, en þar segir aðeins að ef mögulegt sé þurfi einn fulltrúi frá hvorri þjóð að vera viðstaddur dráttinn.

Yfirgnæfandi líkur eru hins vegar á að niðurstaðan verði allt önnur en í þessu einstaka tilviki.

Ljóst er að Ísland kemst áfram í milliriðla ef að liðið tapar ekki gegn Ungverjalandi, og Ísland gæti verið komið áfram áður en leikur hefst ef Serbía vinnur ekki Svartfjallaland. Báðir leikir fara fram í Ólympíuhöllinni og er sá fyrri klukkan 17:00 að íslenskum tíma en sá seinni klukkan 19:30.

Ef að Ísland vinnur Ungverjaland fara þessi tvö lið áfram í milliriðil í Köln, og Ísland þá með stigin tvö úr leik sínum við Ungverja. Ef þau gera jafntefli fara liðin með eitt stig hvort áfram í milliriðilinn. Ef Ungverjaland og Serbía vinna, og markamunurinn verður meiri en eitt mark í að minnsta kosti öðrum leiknum, komast Ungverjar og Serbar áfram.

Keppni í milliriðlinum hefst strax á fimmtudaginn og liðin sem komast þangað spila að minnsta kosti fjóra leiki til viðbótar á mótinu, gegn liðum úr A- og B-riðli.

Næsti leikur Íslands á EM er við Ungverjaland í kvöld klukkan 19.30. Öflugt teymi Vísis er á staðnum og fjallar ítarlega um mótið í máli og myndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×