Í skýrslu sem gerð var fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir, segir að meðlimir RSF og meðlimir sveita sem berjast með þeim, hafi drepið tíu til fimmtán þúsund manns í borginni El Geneina.
Þetta er sagt hafa gerst á milli apríl og júní í fyrra og beindust ódæðin gegn fólki sem tilheyrir Masalit-ættbálknum. Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna segja um mögulega stríðsglæpi að ræða eða glæpi gegn mannkyninu.
Flestir íbúar El Geneina tilheyrðu Masalit-ættbálknum en þeir sem ekki voru drepnir eru sagðir hafa flúið í massavís.
Árásirnar á þetta fólk eru sagðar hafa verið skipulagðar af RSF og framkvæmdar af meðlimum hópsins og sveita Araba sem berjast með þeim.
Ungir menn teknir af lífi
Í skýrslunni segir að þegar fólk hafi lent í höndum RSF-liða hafi konur og menn verið aðskilin og þau beitt ofbeldi. Hundruð eru sögð hafa verið skotin í fæturna svo þau gætu ekki flúið.
Ungir menn voru sérstaklega teknir til yfirheyrslu og ef þeir reyndust af Masalit-ættum voru þeir gjarnan skotnir í höfuðið. Þá segja rannsakendur öryggisráðsins að fjölda kvenna hafi verið nauðgað.
Fólk sagði rannsakendum að mörg lík hefðu legið í vegarkantinum á leiðinni frá El Geneina og þar á meðal hefðu verið lík kvenna og barna.
RSF sneri vörn í sókn
Umfangsmikil átök hófust í Súdan í fyrra þegar deilur komu upp milli tveggja stjórnenda landsins. Það eru þeir Abdel Fattah al-Burhan, sem leiðir súdanska herinn, og Mohamed Hamdan Daglo, sem leiðir hinar öflugu sveitir RSF.
Þeir tóku höndum saman árið 2021 og frömdu valdarán í Súdan. Til stóð að innleiða RSF inn í herinn í fyrra en Dagalo óttaðist að missa öll sín völd með því að flytja sveitir sínar undir stjórn al-Burhan og hófust átökin þess vegna. Þau voru lengi bundin við Khartoum, höfuðborg landsins, og áttu sveitir RSF undir högg að sækja.
Bardagarnir dreifðu svo úr sér og hefur verið barist í öllum héruðum Súdan. Milljónir hafa þurft að flýja heimili sín og ástandinu hefur verið lýst af forsvarsmönnum Sameinuðu þjóðanna sem martraðarkenndu.
Talið er að nærri því helmingur 49 milljóna íbúa Súdan þurfi aðstoð og að rúmlega 7,5 milljónir hafi flúið heimili sín vegna átakanna. Það gerir krísuna í Súdan að þeirri umfangsmestu í heiminum, sé litið til fjölda fólks á vergangi.
Sagðir fá aðstoð frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum
Í skýrslu öryggisráðsins segir að trúverðugar ásakanir um að Sameinuðu arabísku furstadæmin sendi RSF hernaðaraðstoð nokkrum sinnum í viku hafi litið dagsins ljós. Sendingarnar eru sagðar fara í gegnum borgina Amdjarass í norðanverðu Tjad.
Sameinuðu þjóðirnar segja um hálfa milljón manna hafa flúið til Tjad vegna ofbeldisins í Súdan en yfirvöld Sameinuðu arabísku furstadæmunum segjast hafa sent 122 flugvélar af mannúðarhjálp til Amdjarass, ekki hernaðaraðstoð.
Í skýrslunni segir að leiðtogum RSF hafi tekist að snúa við taflinu í fyrra með umfangsmiklu gullsmygli til Egyptalands. Gullið er notað til að fjármagna mútur til annarra vígahópa, laun og vopankaup, sem smyglað er inn í landið í gegnum Tjad, Líbíu og Suður-Súdan.