Mbl greinir frá þessu en í frétt þeirra segir að kæran hafi verið lögð fram af lögmanni á miðvikudag og að hún beinist aðallega að einum mótmælanda. Ekki kemur fram hver kærandinn er.
Mótmælandinn er sakaður um hatursorðræðu í Facebook-færslu sem mbl birtir skjáskot af. Færslan hefur verið vélþýdd úr arabísku yfir á ensku og hljóðar svo gróflega þýdd á íslensku:
„Drepið gyðingana hvar sem þið finnið þá, rífið þá á hol, mígið yfir þá Lík þeirra. Ég sver að við munum dæma þá við hlið Paradísar. Bölvun hvíli á sonum Zíons, sonum apa og svína.“ Mbl fullyrðir að síðustu orð fræslunnar séu úr Kóraninum.

Samkvæmt fréttinni fylgir skjáskotið af færslunni með kærunni og fleiri af álíkum toga sem mbl birtir þó ekki. Þá er fullyrt í fréttinni að svipuð ummæli hafi verið birt af félögum mannsins sem tjaldað hafa á Austurvelli.
Að sögn lögfræðings kærandans brjóti ummælin gegn 233. grein hegningarlaga. Önnur ummæli mannsins og félaga hans sé ekki hægt að skilja öðruvísi en sem „hótanir um að fremja refsiverða verknaði, sem séu til þess fallnar að vekja hjá öðrum ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra.“ Því sé líka kært fyrir þau ummæli.
Þá segir í grein mbl að kærandinn hafi óskað eftir því að meðferð kærunnar verði hraðað sérstaklega vegna þess að hinir kærðu hafi birt myndir af árásarvopnum á samfélagsmiðlum.