Erlent

Skaut fast á Trump, sem ruglaðist á henni og Pelosi

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikki Haley gekk ekki vel í forvali Repúblikana í Iowa á dögunum en vonast eftir betri árangri í New Hampshire á þriðjudaginn.
Nikki Haley gekk ekki vel í forvali Repúblikana í Iowa á dögunum en vonast eftir betri árangri í New Hampshire á þriðjudaginn. AP/Robert F. Bukaty

Nikki Haley, forsetaframbjóðandi í Repúblikanaflokknum, velti í gær vöngum yfir því hvort Donald Trump gæti setið annað kjörtímabil sem forseti Bandaríkjanna, eftir að hann ruglaðist ítrekað á henni og Nancy Pelosi, fyrrverandi þingforseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í ræðu sem hann hélt á föstudagskvöldið.

Í ræðu sem hann hélt þá í New Hampshire fór hann að tala um árásina á þinghúsið í Bandaríkjunum þann 6. janúar 2021, þegar stuðningsmenn hans reyndu að koma í veg fyrir formlega staðfestingu á úrslitum forsetakosninganna í nóvember 2020. Hann tapaði þeim kosningum fyrir Joe Biden.

Trump, sem er 77 ára gamall, hélt því fram að Pelosi hefði stýrt öryggi þinghússins þá og að hún hefði neitað tillögum hans um að hermenn yrðu sendir á svæðið og að hún hefði eytt öllum sönnunargögnum um að hann hefði lagt þessa tillögu fram. Hann hefur haldið þessu áður fram en rannsóknarnefnd þingsins sagði ekkert styðja þær yfirlýsingar.

Í ræðunni nefndi Trump þó Pelosi aldrei á nafn, heldur sagði hann ítrekað Nikki Haley í staðinn.

Hailey hélt sína eigin kosningaræðu í New Hamshire í gær þar sem hún velti vöngum yfir því hvort Trump væri hæfur til að sitja annað kjörtímabil.

„Þeir segja að hann hafi ruglast, að hann hafi verið að tala um eitthvað annað. Hann var að tala um Nancy Pelosi,“ sagði Haley, samkvæmt AP fréttaveitunni.

„Hann nefndi mig nokkrum sinnum í því samhengi. Áhyggjur mínar eru, og ég er ekki að segja neitt niðrandi, en þegar þú átt við álagið sem fylgir forsetaembættinu, getum við ekki haft einhvern annan sem við efumst um að sé andlega hæfur til að sinna því. Við getum það ekki.“

„Viljum við í alvörunni fara inn í kosningar með tvo menn sem verða á níræðisaldri í embætti?“

Samkvæmt frétt Washington Post hefur Haley nefnt önnur tilvik þar sem Trump hefur ruglast með þessum hætti. Meðal annars hefur hún nefnt það að í ræðu hélt Trump því ítrekað fram að hann hefði sigrað Barack Obama, fyrrverandi forseta, í kosningunum 2016, þegar hann sigraði Hillary Clinton.

Haley hefur gert aldur Trumps og getu hans til að sitja í embætti fjögur ár í viðbót að nokkuð stórum hluta kosningabaráttu hennar. Hún hefur þó gagnrýnt Joe Biden, forseta, sem er 81 árs gamall, meira en Trump en ummælum hennar um heilsu Trumps hefur fjölgað.

Hún hefur meðal annars lagt til að leiðtogar þurfi að taka vitsmunapróf.

Trump hefur ekki brugðist við ummælum Haley á beinan hátt. Hann hefur þó nefnt hana á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, þar sem hann kallaði Haley „Birdbrain“ eða „fuglaheila“.

Færsla Trumps á Truth Social frá því í nótt, þar sem hann kallar Nikki Haley „fuglaheila“.

Tengdar fréttir

Trump vann stórsigur í Iowa

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi vann stórsigur í fyrstu forkosningunum í forvali Repúblikana fyrir komandi forsetakosningar í landinu sem fram fóru í Iowa í nótt.

Þrýst á hæstarétt vegna kjörgengis Trumps

Maine varð í gær annað ríki Bandaríkjanna þar sem Donald Trump, fyrrverandi forseta, var meinað að vera á kjörseðlum í nóvember á næsta ári. Hæstiréttur Colorado hafði áður komist að sömu niðurstöðu þar og hafa lögsóknir, sem ætlað er að koma í veg fyrir kjörgengi Trumps, verið höfðaðar í á annan tug ríkja til viðbótar.

Hæstiréttur neitar að flýta máli Trumps

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur neitað beiðni Jack Smith, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, um flýtimeðferð varðandi það hvort Donald Trump, fyrrverandi forseti, njóti enn þeirrar friðhelgi frá lögsóknum sem fylgir forsetaembættinu. Um sigur fyrir Trump er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×