Erlent

Drónaárásir í Rúss­landi í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Ríkisstjóri Leníngradhéraðs birti þessa mynd frá olíuvinnslustöðinni í morgun.
Ríkisstjóri Leníngradhéraðs birti þessa mynd frá olíuvinnslustöðinni í morgun.

Úkraínumenn eru sagðir hafa gert drónaárásir í Rússlandi í nótt en ein þeirra olli miklum eldi á olíuvinnslustöð nærri Pétursborg. Hin árásin ku hafa verið gerð á verksmiðju þar sem loftvarnarkerfi eru framleidd.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir að búið sé að ná tökum á eldinum í olíuvinnslustöðinni og einn olíutankur logi enn. Enginn er sagður hafa slasast eða dáið í eldinum og ekki hefur verið gefið upp hvernig eldurinn kviknaði.

Í frétt BBC er þó vitnað í héraðsmiðla í Rússlandi þar sem haft er eftir vitnum að drónar hafi sést á svæðinu. Einnig hafi heyrst í þeim í kjölfar háværra sprenginga.

Yaroslav Trofimov, blaðamaður Wall Street Journal, segir fregnir hafa borist af frekari drónaárásum í Smólensk og í Orel en ekkert myndefni hafi borist þaðan. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir þrjá dróna hafa verið skotna niður yfir Smolensk.

Rússar hafa í vetur gert umfangsmiklar árásir á orkuinnviði Úkraínu, eins og þeir gerðu síðasta vetur. Ráðamenn í Úkraínu hafa að þessu sinni heitið því að svara þessum árásum.

Úkraínumenn segja Rússa hafa komið nánast öllum sínum loftvarnarkerfum fyrir í austurhluta Úkraínu og því séu skotmörk í Rússlandi viðkvæm fyrir árásum. Þá hafa Úkraínumenn unnið að þróun eigin langdrægra sjálfsprengidróna á undanförnum mánuðum.

Á aðfaranótt föstudags varð stór sprenging í olíugeymslustöð í vesturhluta Rússlands, sem olli stærðarinnar báli. Fjórir stórir olíutankar stóðu í ljósum logum. Einnig varð sprenging í byssupúðursverksmiðju í Tambov, um sex hundruð kílómetra suður af Moskvu, á föstudaginn.


Tengdar fréttir

Stærstu heræfingar NATO í áratugi

Hermenn Atlantshafsbandalagsins og Svíþjóðar munu á næstu mánuðum halda umfangsmestu heræfingar bandalagsins í áratugi. Æfingarnar hefjast í næstu viku og munu standa yfir þar til í maí og í heildina munu um níutíu þúsund hermenn koma að þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×