Innlent

Tíðindin breyti ekki af­stöðu þing­manna til málsins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir og Inga Sæland óskuðu báðar Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, góðs bata. Þær sögðu þó báðar að tíðindin breyttu ekki afstöðu þingmanna til hvalveiðibannsins.
Hildur Sverrisdóttir og Inga Sæland óskuðu báðar Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, góðs bata. Þær sögðu þó báðar að tíðindin breyttu ekki afstöðu þingmanna til hvalveiðibannsins. Vísir/Vilhelm

Formaður Flokks fólksins segir ekkert annað hafa komið til greina en að draga til baka vantraust en hvalveiðimálið vofi þó enn yfir. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir flokkinn ekki hafa verið búinn að komast að afstöðu til vantrausts þegar tíðindi af veikindum ráðherra bárust. Tíðindin breyti þó ekki óánægju flokksins með málið.

Eftir að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, greindi frá veikindum sínum í morgun ákvað Flokkur fólksins að draga til baka vantrauststillögu á hendur ráðherranum. Hvalveiðimálið og afleiðingar þess eru þó enn óleyst.

Heimir Már Pétursson ræddi við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins og Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, um fregnirnar sem bárust í dag af matvælaráðherra og hvalveiðimálið sem er enn óleyst. Horfa má á viðtalið við þær tvær frá tímanum 2:20 í klippunni hér fyrir neðan:

Óska Svandísi góðs bata en segja málið enn óleyst

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir ekki annað hafa komið til greina en að draga vantrauststillöguna til baka. Hún segir málið hins vegar ekki hverfa á meðan Svandís háir sína baráttu.

Inga segir að Flokkur fólksins muni bíða eftir Svandísi á meðan hún jafnar sig af veikindum.Vísir/Arnar

Málið stendur eins að þið eruð ekki ánægð með hvernig staðið var að þessu hvalveiðibanni?

„Nei, að sjálfsögðu var þetta skýlaust lögbrot og vísvitandi og allt það en við fengum þessar sláandi fréttir í dag og þá var ekkert annað í stöðunni. Við munum ekki koma með vantraust nema sá einstaklingur sem vantraustið beinist að geti verið hér til að verjast því vantrausti,“ sagði Inga Sæland.

„Þess vegna óskum við Svandísi góðs bata og kærleikskveðjur til hennar akkúrat í þessari stöðu í dag. Hún er að fara að takast á við stórt og mikið verkefni en ég er ekkert að segja það að þegar hún kemur eldhress aftur, sem ég býst við að hún geri því hún vinnur alla sigra, þá náttúrulega erum við enn hér,“ sagði Inga.

Og tillagan kannski endurflutt þá?

„Það kemur í ljós og ég á frekar von á því, já,“ sagði Inga.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins enn óljós

Hvalveiðibann Svandísar í sumar hefur verið mjög umdeilt innan raða Sjálfstæðisflokksins. Hildur Sverrisdóttir segir þingflokkinn ekki hafa verið búinn að komast að niðurstöðu um tillöguna þegar fregnir af veikindum Svandísar bárust.

Hildur segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé enn mjög óánægður með hvalveiðimálið og að tíðindin af veikindum breyti því ekki.Vísir/Arnar

Lék líf ríkisstjórarinnar á reiðiskjálfi?

„Ég verð nú að fá að byrja á að segja að okkur var öllum mjög brugðið yfir þessum vondu tíðindum matvælaráðherra sem við í þingflokknum höfðum ekki veður af fyrr en hún birti sína færslu. Ég vil fá að koma á framfæri að við óskum henni öll heilshugar alls hins besta í sínu erfiða verkefni sem er framundan,“ sagði Hildur Sverrisdóttir.

„Það er þannig að þegar við fáum þessar fréttir er þingflokksfundi okkar lokið. Við höfðum ekki náð að tæma umræðuna þannig að niðurstaða í því hvernig þingflokkurinn hygðist bregðast við lá ekki fyrir. Þannig er það bara. Mér finnst að svo komnu máli ekki rétt að fara frekar út í þá sálma hér og nú,“ sagði Hildur um afstöðu flokksins til vantrauststillögunnar.

Tíðindin breyti ekki óánægju þingflokksins

Það hefur borið á ýmsum kurr í ríkisstjórninni og í þessu samstarfi. Er þessari ríkisstjórn sitjandi á það sem eftir lifir þessa vetrar og svo næsta vetur?

„Þessi tíðindi eru ekki eðlisbreyting á því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eru mjög ósáttur við hvernig til dæmis á þessu máli var haldið. Svo erum við auðvitað ósammála um ýmis mál, það vita allir,“ sagði Hildur.

„En núna framundan eru mjög stór, mikilvæg og viðkvæm málefni í íslensku samfélagi sem að krefjast athygli okkar. Ef þessi ríkisstjórn hefur gert eitthvað vel þá er það að taka stór samfélagsleg verkefni í fangið og klára þau og það er verkefnið núna,“ sagði hún að lokum.


Tengdar fréttir

Inga dregur van­trausts­til­löguna til baka

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var ekki fyrr búin að leggja fram vantraustyfirlýsingu en Svandís Svavarsdóttir greindi frá því að hún væri komin með krabbamein. Hún segir réttast að draga tillöguna til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×