Um tólf hundruð heimili eru í Grindavík. Í eldgosinu fyrir rúmri viku fór rafmagn og heita og kalda vatnið af bænum en síðan þá hefur mikið frost verið úti.
„Við erum búnir að vera í kapphlaupi við tímann að reyna að frostverja húsin. Að reyna að koma heitu vatni á, rafmagni og einhverri kyndingu og við erum búin að vera með svona sirka þrjátíu til fimmtíu pípulagningamenn með okkur og rafvirkja. Það er búið að hlaupa hús úr húsi,“ segir Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar segir að í dag hafi verið lokið við að koma hita á síðustu húsin í bænum og þá sé rafmagn líka komið á alls staðar. Það hafi verið mikilvægt að ná að vinna þetta svona hratt.
„Þetta er heimili fólks og við viljum reyna allt sem við getum til að reyna að vernda að það verði fyrir óþarfa skemmdum.“

Þá segir hann það hafa skipt sköpum hversu margir pípulagningamenn tóku þátt í verkefninu.
„Ég hugsa að þetta sé eitt stærsta pípulagningaverkefni sem hefur verið tekið af heilu bæjarfélagi.“
Kaldavatnslaust er enn í bænum en hraun fór yfir kaldavatnslögn bæjarins í eldgosinu.
„Við erum búin að finna báða endana á lögninni. Nú þarf að hreinsa hana út og kæla og laga og reyna að koma köldu vatni niður í bæinn um helgina. Það er draumastaða.“