Erlent

Tyrk­neska þingið sættir sig við inn­göngu Svía

Árni Sæberg skrifar
Erdogan Tyrklandsforseti tekur í spaðann á Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía. Með þeim er Jen Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Erdogan Tyrklandsforseti tekur í spaðann á Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía. Með þeim er Jen Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Filip Singer/Getty

Tyrkneska þingið samþykkti fyrir sitt leyti í kvöld að Svíum yrði veitt innganga í Atlantshafsbandalagið. Veiti Ungverjar einnig samþykki sitt mun samþykki allra aðildarþjóða bandalagsins liggja fyrir.

Frá þessu segir í frétt Reuters. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti samþykkti aðild Svíþjóðar á fundi með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í júlí síðastliðnum. Þá sagðist hann munu leggja það fyrir tyrkneska þingið að samþykkja inngönguna.

Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar á síðasta ári en tyrknesk stjórnvöld höfðu lengi dregið að samþykkja aðild Svía þar sem Tyrkir hafa sakað sænsk stjórnvöld um að vernda liðsmenn PKK, frelsishreyfingu Kúrda, sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

Finnar fengu aðild að sambandinu strax í apríl í fyrra.

Í frétt Reuters segir að þingið hafi kosið um tillögu forsetans eftir fjögurra klukkustunda viðræður og hún hafi verið samþykkt með nokkrum meirihluta. Þingmenn flokks forsetans, AK, helsta samstarfsflokks hans, MHP, og stærsta stjórnarandstöðuflokksins, CHP, hafi samþykkt tillöguna.

Nú eru það aðeins Ungverjar sem eiga eftir að samþykkja inngöngu Svía en allar aðildarþjóðir þurfa að veita slíkt samþykki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×