Erlent

Popúlískir hægri­flokkar sækja á fyrir kosningar til Evrópu­þingsins

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Marine Le Pen leiðir frönsku Þjóðfylkinguna, en kannanir benda til að flokkurinn muni bæta við sig verulegu fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fara í júní.
Marine Le Pen leiðir frönsku Þjóðfylkinguna, en kannanir benda til að flokkurinn muni bæta við sig verulegu fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fara í júní. EPA

Pópúlískir hægriflokkar sem eru andstæðingar Evrópusamrunans virðast vera að sækja verulega á fyrir komandi kosningar til Evrópuþingsins sem fram fara í júní.

Gangi þessar spár eftir gæti það haft miklar afleiðingar fyrir störf þingsins og verið ógn við undirstöður Evrópusamstarfsins á borð við loftslagsmál, málefni innflytjenda, frekari stækkun sambandsins og stuðning ESB við Úkraínu.

Guardian greinir frá þessu og segir frá nýrri könnun sem gerð var innan aðildaríkjanna tuttugu og sjö sem bendir í þessa átt. Einnig var stuðst við útreikninga á því hvernig raðast hefði inn á þingið í síðustu kosningum og þykir greinendum ljóst að þjóðernissinnaðir hægriflokkar séu nú á mikilli siglingu.

Líklegast er talið að slíkir flokkar verði stærstir í níu löndum, þar á meðal í Frakklandi, Austurríki og í Póllandi. Þá er búist við að þjóðernisflokkar verði næst stærstir í öðrum níu ríkjum, til að mynda í Þýskalandi, Spáni, Svíþjóð og Portúgal.

Gangi spár eftir gæti í fyrsta sinn skapast hægri meirihluti á þinginu með þingmönnum úr röðum Kristilegra demókrata, íhaldsmanna og þingmanna popúlískra hægri öfgaflokka.

Kosningarnar til Evrópuþingsins fara fram dagana 6. til 9. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×