Erlent

Her­flug­vél féll til jarðar í Belgorod

Samúel Karl Ólason skrifar
Svo virðist sem hluti vængs flugvélarinnar hafi brotnað af áður en hún lenti á jörðinni og rennir það stoðum undir það að hún hafi verið skotin niður.
Svo virðist sem hluti vængs flugvélarinnar hafi brotnað af áður en hún lenti á jörðinni og rennir það stoðum undir það að hún hafi verið skotin niður.

Flutningaflugvél rússneska hersins hrapaði til jarðar í Belgorod-héraði í morgun og sprakk. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir Il-76 flugvélina hafa borið 65 úkraínska stríðsfanga sem til stóð að skipta við Úkraínumenn, auk áhafnar, alls 74 manns.

Fjölmiðlar í Úkraínu birtu upprunalega í morgun fréttir um að flugvélin hefði verið skotin niður af úkraínska hernum og að hún hafi borið S-300 eldflaugar sem skjóta átti á úkraínskar borgir. Þær fregnir hafa nú verið dregnar til baka og vitna fjölmiðlar í Úkraínu í varnramálaráðuneytið og segja að ekki sé hægt að staðfesta að þeir hafi skotið flugvélina niður.

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst, hefur það þó nokkrum sinnum gerst að rússneskir hermenn hafi skotið niður rússneskar herflugvélar fyrir mistök. Þá hafa ráðamenn í Rússlandi ítrekað verið gómaðir við að segja lygar.

Enn er ekki hægt að segja til um hvað gerðist í rauninni í Belgorod í morgun.

Reykský sem sýnilegt er á meðfylgjandi myndbandi yfir svæðinu þar sem flugvélin brotlenti gefur til kynna flugvélin hafi verið skotin niður, eða í það minnsta að sprenging hafi orðið um borð.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir Andrey Kartapolov, formanni varnarmálanefndar Dúmunnar, að flugvélin hafi verið skotin niður af Úkraínumönnum. Þrjú flugskeyti hafi verið notuð til að skjóta flugvélina niður. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi lifað af.

Þá er haft eftir honum í rússneskum fjölmiðlum að fangaskipti við Úkraínumenn hafi verið sett á pásu vegna atviksins. Fangaskipti hafa þó verið mjög sjaldgæf á undanförnum mánuðum.

Flugvélin féll ekki til jarðar í byggð. Samkvæmt RIA brotlenti hún fimm til sjö kílómetra frá næsta þorpi.

Fyrr í morgun sagði Vólódímir Selenskí, forseti Úkraínu, að átján manns hefðu fallið í eldflaugaárásum Rússa á borgir í Úkraínu og 130 hefðu særst. Rúmlega fjörutíu eld- og stýriflaugum var skotið að þremur borgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×