Innlent

Fundu lungnaorm í inn­fluttum hundi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lungnaormur greindist í innfluttum hundi frá Svíþjóð. Tegund hundsins er ekki tilgreind í tilkynningu frá MAST og tengist hundurinn á myndinni fréttinni ekkert.
Lungnaormur greindist í innfluttum hundi frá Svíþjóð. Tegund hundsins er ekki tilgreind í tilkynningu frá MAST og tengist hundurinn á myndinni fréttinni ekkert. Getty

Lungnaormur greindist í sýni úr hundi sem fluttur var til landsins frá Svíþjóð á síðasta ári. Engin snýkjudýr greindust í hundinum sem tekin voru á meðan hann var í einangrun. Ormurinn virðist ekki hafa smitast í önnur dýr á heimilinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun og segir þar að umræddur ormur, sem nefnist Crenosoma vulpis, finnist oftast í refum og kallist sníkjudýrið því iðulega „lungnaormur refsins“. Þessi tegund lungnaorms hafi aldrei áður fundist hér á landi. Fram kemur í tilkynningunni að hundurinn hafi verið fluttur til landsins fyrir ári síðan og ekkert fundist við sýnatökur þá. 

„Síðsumars fór að bera á hósta hjá hundinum sem ekki batnaði þrátt fyrir ýmiskonar meðhöndlun gegn bólgum og bakteríusýkingum. Í byrjun árs var þá tekið barkaskol á Dýraspítalanum í Garðabæ fyrir strok og ræktun og var sýnið sent á rannsóknarstofu erlendis. Niðurstaðan bent til lungnaorms en tegund var ekki greind,“ segir í tilkynningunni. 

Sniglar millihýslar ormsins

Við það hafi MAST beint því til eigandans að halda hundinum í heimaeinangrun. Saursýni hafi verið tekin úr hundinum og öðrum hundum á heimilinu og þau send til rannsóknar að Keldum. Sérfræðingar þar hafi greint tegund ormsins en hann hafi aðeins fundist í sýni þessa hunds. 

„Þessi tegund lungnaorms hefur aldrei greinst áður á Íslandi, hvorki í hundum í einangrun né í hundum eða öðrum dýrum hér á landi. Meðhöndlun hófst um leið og niðurstaða greiningar lá fyrir og voru allir hundar heimilisins meðhöndlaðir til öryggis. Hundunum verður haldið í heimaeinangrun þangað til meðhöndlun er lokið og lirfur finnast ekki lengur í saursýnum.“

Fram kemur hjá MAST að þessi tegund lungnaorms finnist víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Í fyrra hafi hann greinst í fyrsta sinn í Afríkuríki og nú í fyrsta sinn á Íslandi. Ormurinn sýki bæði refi og hunda og sé víða landlægur í rauðrefum. Millihýslar ormsins eru sniglar af hvaða tegund sem er.

„Talið er að smit berist í hunda þegar þeir éta smitaða snigla, eða slím frá sniglum en smit getur ekki borist beint frá hundi til hunds. Fólki stafar ekki hætta af lungnaorminum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×