Í gær tilkynntu stjórnendur hjá Ríkisútvarpinu að þátttaka Íslands í Eurovision í Malmö í maí myndi skýrast almennilega að Söngvakeppni sjónvarpsins lokinni.
Alla jafna er sú keppni undankeppni Íslands fyrir Eurovision en með þessu hefur RÚV rofið þau beinu tengsl. Söngvakeppnin fer fram óháð þátttöku Íslands í Eurovision.
Ekki voru allir sáttir við þessa ákvörðun RÚV. Einhverjir vilja meina að þarna sé Ríkisútvarpið að leggja ábyrgðina á herðar keppandans sem endar á að vinna Söngvakeppnina. Ákvörðunin verður hans.
En þá er spurningin, ætti Ísland að taka þátt og breytir þessi ákvörðun RÚV einhverju? Fréttamaður spurði nokkra vegfarendur í dag og fékk eftirfarandi svör.
„Nei, mér finnst það ekki,“ segir Haukur Logi. „Ekki meðan Ísraelar eru þátttökuþjóð. Þá er ég alfarið á móti því. “
Finnst þér það breyta einhverju að Eurovision og Söngvakeppnin séu aðskildar?
„Nei, mér finnst það bara vera skrípaleikur að gera þetta á þann hátt sem þeir ætla að gera þetta.“

Ingibjörgu Lilju Jónsdóttur finnst heldur ekki að Ísland eigi að taka þátt í keppninni. Hvers vegna?
„Bara, sýna samstöðu í heiminum. Þetta er svolítið ljótt ástand. Og bara sýna samstöðu og vera saman í þessu. Það eru ekki allir sammála,“ segir Ingibjörg.
Peningunum betur varið
„Mér finnst allt í lagi að halda Söngvakeppnina hérna heima, bara fyrir okkur. En mér finnst að við ættum að draga okkur til hliðar,“ segir Elín Sigurvinsdóttir.
Gabriela Maria Skibinska tekur í svipaðan streng. „Mér finnst þetta bara fáránlegt. Mér finnst eins og RÚV sé að láta aðilann sem vinnur taka ákvörðun og blame-a hann. Og ef hann ákveður að taka þátt þá er hann vondi gaurinn og ef hann tekur ekki þátt er hann líka vondi gaurinn. En RÚV þarf ekki að taka afstöðu til málanna.“

Gunnar Ingi Jones telur heldur ekki að Ísland ætti að taka þátt í Eurovision. „Eiginlega ekki sko. Mér líður eins og peningarnir gætu farið á betri stað þetta árið,“ segir hann.
Óvæntar vendingar urðu í dag þegar greint var frá því að Palestínumaðurinn Bashar Murad myndi taka þátt í Söngvarkeppninni hér á landi. Hvort það muni breyta afstöðu fólks til þátttöku Íslands skýrist væntanlega á næstu dögum.