Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ en um er að ræða jörð sem er í eigu Aflvaka og innan bæjarmarka Kópavogs. Bærinn sjálfur á mikið langt á svæðinu, sem er utan núverandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Fram kemur í tilkynningunni að farið verði í viðræður við nágrannasveitarfélögin um breytingu á vaxtamörkunum.
Viljayfirlýsing um uppbygginguna verður afgreidd á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 13. febrúar næstkomandi. Áformin fela í sér uppbyggingu heils íbúðahverfis með búsetuíbúðum, sérstaklega sniðnum að þörfum fólks yfir sextugu. Þá er gert ráð fyrir allt að 1.200 hjúkrunarrýmum í hverfinu þegar það er fullbyggt. Það jafngildir um helmingi þeirra hjúkrunarrýma sem ráðgert er að vanti á höfuðborgarsvæðinu á næstu fimmtán árum.

Þá á að reisa heilsukjarna þar sem starfrækt verður heilsuhús og nýsköpunarmiðstöð með áherslu á heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.
„Gangi áformin eftir er Kópavogsbær ekki aðeins að stíga mikilvægt skref í að leysa stórar áskoranir er snúa að húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins og öldrun þjóðar heldur er hér um að ræða nýjan og spennandi valkost sem ekki hefur verið í boði áður. Eldri bæjarbúar eru ört vaxandi og fjölbreyttur hópur og mikilvægt að bjóða uppá fleiri búsetumöguleika til að mæta betur þörfum þeirra. Hér eru metnaðarfull áform um uppbyggingu á lífsgæðakjarna sem ríma vel við stefnu Kópavogsbæjar,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í tilkynningunni.