Fótbolti

Ró­legur janúar í rauða hluta Manchester-borgar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martial er meiddur en það kemur þó enginn í hans stað.
Martial er meiddur en það kemur þó enginn í hans stað. imon Stacpoole/Getty Images

Þó svo að Jim Ratcliffe sé byrjaður að taka til utan vallar hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United þá virðist sem Erik ten Hag, þjálfari liðsins, fái engar viðbætur þó svo að janúarglugginn sé opinn í nokkra daga til viðbótar.

Breski auðkýfingurinn var ekki lengi að taka til hendinni hjá Man United en enska úrvalsdeildin á enn eftir að staðfesta kaup hans á 25 prósent eignarhlut í félaginu.

Nú þegar hefur Man Utd ráðið nýjan framkvæmdastjóra en það verða þó litlar breytingar á leikmannahópi félagsins.

Antony Martial gekkst nýverið undir aðgerð og verður frá í 10-12 vikur hið minnsta. Talið var að Man United gæti reynt það sama og á síðustu leiktíð þegar það sótti Marcel Sabitzer og Wout Weghorst á láni.

Nú hefur The Athletic greint frá því að það sé ekki einu sinni möguleiki ætli félagið að standast regluverk ensku úrvalsdeildarinnar. 

Ten Hag vonast þó til að endurkoma manna á borð við Casemiro, Lisandro Martínez, Luke Shaw og Harry Maguire verði eins og að fá nýja leikmenn þar sem gengi liðsins á leiktíðinni hefur ekki verið upp á marga fiska.

Man United sækir Newport County heim í ensku bikarkeppninni, FA Cup, á sunnudag. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×