Fótbolti

Lyon skoraði sjö en Barcelona að­eins tvö

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ada Hegerberg fagna öðru marka sinna í kvöld.
Ada Hegerberg fagna öðru marka sinna í kvöld. @OLfeminin

Lyon og Barcelona unnu þægilegra sigra í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Sigur Lyon var þó heldur þægilegri en sigur Börsunga sem hafa átt betri dag fyrir framan markið.

Ekki nóg með að Barcelona væri komið áfram þegar leikur kvöldsins gegn Eintracht Frankfurt í 5. umferð Meistaradeildar Evrópu hófst heldur var liðið einnig búið að tryggja sér sigur í A-riðli.

Hvort um kæruleysi hafi verið að ræða verður ósagt látið en Barcelona komst yfir á 19. mínútu með marki Patricia Guijarro. Það reyndist eina mark leiksins þangað til á þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá bætti Caroline Graham við marki eftir sendingu Lucy Bronze og þar við sat, lokatölur 2-0.

Börsungar eru með fullt hús stiga að loknum fimm umferðum, Benfica er í 2. sæti með átta stig og er sömuleiðis komið áfram í 8-liða úrslit. Frankfurt er í 3. sæti með fjögur stig á meðan Rosengård, lið Guðrúnar Arnardóttur, rekur lestina með eitt stig.

Í B-riðli var Lyon komið áfram en baráttan um toppsætið þó enn á lífi eftir sigur Brann og Natöshu Anasi-Erlingsson fyrr í kvöld. Lyon sótti St. Pölten heim og sýndi sínar bestu hliðar.

Tvö mörk á tveimur mínútum gerðu í raun út um leikinn en staðan var 0-3 í hálfleik. Ada Hegerberg hafði þá skorað tvennu og Sara Dabritz skoraði eitt og lagði upp annað. Þá var Damaris Berta Egurrola Wienke með tvær stoðsendingar.

Vanessa Gilles bætti fjórða markinu við, Dzsenifer Marozsan því fimmta og Kadidiatou Diani því sjötta áður en Dabtriz veitti heimaliðinu náðarhöggið, lokatölur 0-7.

Lyon nú á toppi B-riðils með 13 stig, þremur meira en Brann þegar ein umferð er eftir. Þar á eftir koma Slavia Prag með fjögur stig og St. Pölten með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×