Ensku bikarmeistararnir í Manchester City unnu 0-1 sigur er liðið heimsótti Tottenham í fjórðu umferð FA-bikarsins í kvöld.
Þetta var í sjötta sinn sem Manchester City heimsækir nýja heimavöllinn hjá Tottenham sem var tekinn í notkun árið 2019. Í fyrstu fimm heimsóknum City á völlinn hafði liðið tapað öllum fimm leikjunum og aldrei hafði liðið náð að skora.
Eins og í fyrri heimsóknum City á völlinn vantaði liðinu ekki færin til að skora. Oscar Bobb kom boltanum vissulega í netið fyrir gestina eftir aðeins fimm mínútna leik, en aðstoðardómarinn flaggaði og markið dæmt af vegna rangstöðu.
Liðið skapaði sér nokkur færi í viðbót til að skora, en eins og í fyrri heimsóknum virtist boltinn einfaldlega ekki vilja fara inn. Heimamenn í Tottenham sköpuðu sér nokkrum sinnum góðar stöður, en færin létu á sér standa.
Það var ekki fyrr en á 88. mínútu að gestirnir náðu loksins að brjóta ísinn. Kevin De Bruyne tók þá hornspyrnu sem heimamenn réðu ekki við og boltinn skoppaði inni á markteig áður en Nathan Aké mokaði honum yfir línuna. Guglielmo Vicario, markverði Tottenham, fannst Ruben Dias brjóta á sér í aðdraganda marksins, en fékk ekkert fyrir sinn snúð og markið fékk að standa.
Reyndist þetta eina mark leiksins og niðurstaðan varð því 0-1 sigur bikarmeistara City sem eru á leið í 16-liða úrslit FA-bikarsins, en Tottenham situr eftir með sárt ennið.