Aganefnd FIFA dæmdi Rubiales í þetta 36 mánaða bann fyrir hegðun hans eftir úrslitaleik HM kvenna sem fór fram 20. ágúst síðastliðinn. Rubiales smellti þar óumbeðnum og ósamþykktum kossi á Jenni Hermoso í verðlaunaafhendingunni.
Rubiales neitaði að segja af sér í kjölfarið, Hermoso og fleiri leikmenn í bæði kvenna- og karlalandsliði Spánar hættu þá að gefa kost á sér. Hann tilkynnti svo í spjallþætti hjá Piers Morgan, um þremur vikum eftir atvikið, að hann myndi segja af sér.
Málið dró alla athygli frá góðum árangri Spánar á mótinu og hefur dregið langan dilk á eftir sér. Rubiales stóð fastur á sínu að hann hafi ekkert gert af sér. Fjölskyldumeðlimir Rubiales fóru að blanda sér í málið, móðir hans lokaði sig inni í kirkju og fór í hungurverkfall í mótmælaskyni. Frændi hans steig svo opinberlega fram, kallaði hann gungu og sakaði um að skemmta sér með ólögráða einstaklingum.
Nú þegar áfrýjuninni hefur verið hafnað er ljóst að Luis Rubiales mun ekki starfa eða taka þátt í neinu knattspyrnutengdu næstu þrjú árin að minnsta kosti.