Fótbolti

Kristian Nökkvi skoraði og lagði upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristian Nökkvi fagnar marki sínu í kvöld.
Kristian Nökkvi fagnar marki sínu í kvöld. Dennis Bresser/Getty Images

Kristian Nökkvi Hlynsson heldur áfram að gera frábæra hluti með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Í kvöld skoraði hann og lagði upp í 4-2 útisigri á Heracles.

Kristian Nökkvi var á sínum stað í byrjunarliði Ajax en liðið lenti hins vegar nokkuð óvænt undir snemma leiks. Brian Brobbey jafnaði metin skömmu síðar og staðan 1-1 í hálfleik.

Steven Berghuis kom Ajax yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik eftir undirbúning Íslendingsins unga. Brobbey skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Ajax aðeins tveimur mínútum síðar.

Heimamenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn örskömmu síðar og það var ekki fyrr en á 84. mínútu, þegar Kristian Nökkvi - eða Kris eins og hann virðist vera kallaður í Amsterdam - kom Ajax aftur tveimur mörkum yfir, sem gestirnir gátu andað léttar. Hann hefur nú skorað sex mörk og gefið eina stoðsendingu í 15 deildarleikjum á tímabilinu.

Reyndist það síðasta mark leiksins og lokatölur 2-4. Sigurinn þýðir að Ajax er nú með 34 stig í 5. sæti, aðeins þremur minna en Twente í 3. sæti sem á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×