Erlent

Æðstu ráða­menn Ísrael í­treka á­köll um brott­flutning Palestínu­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ben Gvir var vígreifur á ráðstefnunni og steig dans með félögum sínum.
Ben Gvir var vígreifur á ráðstefnunni og steig dans með félögum sínum. epa/Abir Sultan

Ráðherrar í ríkisstjórn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, voru meðal þúsunda gesta á ráðstefnu sem fram fór í Jerúsalem í gær, þar sem fjallað var um nauðsyn þess að „endurnema“ Gasa og mögulegar leiðir til þess.

Viðstaddir voru meðal annarra Itamar Ben Gvir, ráðherra þjóðaröryggismála, og fjármálaráðherrann Bezalel Smotrich, þingmenn, rabbínar, aðgerðasinnar úr hópi landnema og fjölskyldur hermanna á Gasa.

Dagblaðið Haaretz hefur eftir Ben Gvir að ef Ísraelsmenn vilji ekki sjá árásir Hamas 7. október síðastliðinn endurtaka sig verði þeir að „snúa heim og stjórna Gasa“. Finna þyrfti leiðir til að fá Palestínumenn til að yfirgefa svæðið sjálfviljuga og dæma hryðjuverkamenn til dauða.

„Ég biðla til þín, Netanyahu forsætisráðherra; nú er tíminn fyrir hugdjarfar ákvarðanir.“

Flokkssystkini forsætisráðherrans á ráðstefnunni tóku undir áköll Ben Gvir og haft var eftir fjarskiptamálaráðherranum Shlomo Karhi að „sjálfviljugir“ þýddi stundum að skapa þyrfti ákveðið ástand þar til menn gæfu eftir.

Ferðamálaráðherrann Haim Katz sagði að eftir mörg ár af afskiptaleysi gagnvart Gasa hefðu Ísraelsmenn nú loks tækifæri til þess að endurbyggja og stækka yfirráðasvæði sitt. Þetta væri lokatækifærið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×