Enski boltinn

Mættur til að keyra rútu sólar­hring eftir bikarævintýrið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lamar Reynolds fagnar eftir að hafa komið Maidstone United yfir gegn Ipswich Town.
Lamar Reynolds fagnar eftir að hafa komið Maidstone United yfir gegn Ipswich Town. getty/Joe Giddens

Lamar Reynolds var ein af hetjum helgarinnar í ensku bikarkeppninni í fótbolta. Líf hans er samt ansi frábrugðið lífi flestra sem spiluðu í bikarkeppninni um helgina.

Reynolds skoraði fyrra mark Maidstone United þegar liðið vann Ipswich Town, 1-2, á laugardaginn. Sigurinn var afar óvæntur enda er Maidstone í sjöttu efstu deild á meðan Ipswich er í toppbaráttu í B-deildinni. Þjálfari Maidstone er Messuvinurinn George Elokobi.

Aðeins sólarhring eftir leikinn var Reynolds mættur í hina vinnuna sína. Hann er rútubílstjóri og verkefni sunnudagsins var að keyra einhverf ungmenni um London.

„Ég vinn fyrir fyrirtæki sem sér um samfélagsþjónustu, einu sinni eða tvisvar í viku. Ég er bílstjóri. Ef það er leikur á þriðjudegi keyri ég á morgnana. Þetta er ungt fólk með einhverfu og ég fer með það á viðburði eins og glímu eða körfubolta. Þetta eru krakkar úr hverfinu og margir þeirra hafa horft á leikinn,“ sagði Reynolds.

Reynolds kom til Maidstone frá Braintree fyrir tímabilið. Markið hans gegn Ipswich var hans fyrsta fyrir Maidstone. Það var afar laglegt en Reynolds vippaði snyrtilega yfir markvörð Ipswich, Christian Walton, eftir skyndisókn.

Maidstone er fyrsta liðið úr sjöttu efstu deild sem kemst í 5. umferð ensku bikarkeppninnar síðan Blyth Spartans afrekaði það 1978. 

Í 5. umferðinni mæta Reynolds og félagar annað hvort Coventry City eða Sheffield Wednesday.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×