Innlent

Sex eldingar á fimm mínútum í Blá­fjöllum

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Þrumur hafa heyrst á höfuðborgarsvæðinu vegna eldinga sem gengu yfir skömmu eftir hádegi.
Þrumur hafa heyrst á höfuðborgarsvæðinu vegna eldinga sem gengu yfir skömmu eftir hádegi. Getty

Að minnsta kosti sex eldingum laust niður á Bláfjallasvæðinu á fimm mínútna tímabili skömmu eftir klukkan 13 í dag. Þær fylgdu éljabakka sem nú er farinn hjá, svo ólíklegt þykir að þær verði fleiri á svæðinu. Eld­inga­kerfi Veður­stofu Íslands hefur mælt um sextán eldingar frá því klukkan 9 í morgun.

Á milli klukkan 13:05 og 13:10 mældu eldingarkerfi Veðurstofunnar sex eldingar í Bláfjöllum og á Hellisheiði. Óli Þór Árnason, veður­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands útilokar ekki að þær hafi verið fleiri. Kerfið sé ófullkomið og nemi ekki allar eldingar. 

„Þetta var hérna aftast í úrkomubakka, eins og oft vill vera á þessum tíma. Bakkinn er farinn hjá svo það er ólíklegt að það komi fleiri akkúrat þarna.“

Veðurfræðingur útilokar ekki að eldingarnar hafi verið fleiri, en þær voru að minnsta kosti sex í Bláfjöllum.Vísir/Arnar

Óli segir eldingar alltaf koma aðeins á óvart hér á landi.

„Þetta er samt viðbúið þegar er svona þokkalega öflugt éljaloft, þá geta alltaf fylgt eldingar. En spáin gaf þetta ekki endilega til kynna. Það hefur verið meira suður og suðaustur af landinu, og þær eru að færast austur og eru komnar norður af Færeyjum núna.“

Alls hafa mælst sextán eldingar í heildina á landinu í dag. 

Ef maður hefur verið erlendis í eldingarveðri þykja sextán eldingar ósköp aumt

Þrumur sem fylgdu eldingunum heyrðust á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur segist Óli hafa heyrt í þrumum í dag þaðan sem hann er við störf á Veðurstofunni á Bústaðavegi í Reykjavík. 

Ekki hafa borist tilkynningar um skemmdir eða truflanir af völdum eldinganna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×