Enski boltinn

Segja þrjá stjóra passa best fyrir Liverpool og einn er Norð­maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki að lesa fréttina þarna en ekki er vitað hversu mikinn þátt hann tekur í að finna eftirmann sinn.
Jürgen Klopp er ekki að lesa fréttina þarna en ekki er vitað hversu mikinn þátt hann tekur í að finna eftirmann sinn. Getty/Alexander Hassenstein

Liverpool er að horfa í kringum sig og hefja leit að eftirmanni Jürgen Klopp. Þjóðverjinn hættir með liðið í sumar eftir níu ára starf.

Spænska stórblaðið Marca hellti sér í smá rannsóknarvinnu til að finna út hvaða stjóri passar best fyrir Liverpool.

Blaðamaður Marca bendir reyndar á það að Liverpool eigi eftir að ákveða hvort félagið vilji knattspyrnustjóra sem er svipaður og Klopp eða fá nýjar og allt aðrar áherslur inn á Anfield.

Vilji félagið fylgja sömu slóð og Klopp var að fara, sem er líklegt, þá segir blaðið hafa funduð þrjá stjóra sem passa best fyrir Liverpool.

Blaðið notaði Coachinside forritið til að kalla eftir stjórum sem vilja spila ákveðinn fótbolta og fylgja svipuðum leikstíl og Liverpool spilar og vill spila.

Einn af þessum stjórum er Xabi Alonso, stjóri Bayer Leverkusen, sem hefur verið orðaður við starfið frá fyrstu mínútu en annar er Spánverjinn Luis Enrique sem nú stýrir franska liðinu Paris Saint Germain.

Þriðji maðurinn kemur nokkuð á óvart en það er Norðmaðurinn Kjetil Knutsen sem hefur verið að gera góða hluti með norska félagið Bodö/Glimt.

Staðarblaðið Avisa Nordland bar þessa grein í Marca undir Knutsen. „Það er gaman að þessu. Ég skil svo sem alveg af hverju ég kom upp en fyrir utan það eru hinir kostirnir mun betri. Það er samt gaman að menn séu að taka eftir því sem við erum að gera í Glimt. Við leggjum áherslu á liðið en ekki einstaklingana,“ sagði Knutsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×