Handbolti

Sá sem ís­lenski læknirinn hjálpaði boðið í kvöld­verð sænska liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio með uppáhaldsleikmanni sínum í sænska liðinu sem er Andreas Palicka markvörður.
Antonio með uppáhaldsleikmanni sínum í sænska liðinu sem er Andreas Palicka markvörður. @handbollslandslaget

Það eru góðar fréttir af stuðningsmanni sænska handboltalandsliðsins sem þurfti aðstoð lækna á leik Svía og Þjóðverja um þriðja sætið á EM í Þýskalandi.

Maðurinn veiktist á miðjum leik og skapaðist í framhaldinu óhugnanlegt ástand í stúkunni.

Arnar Sigurðsson, margfaldur Íslandsmeistari í tennis, er læknir sænska landsliðsins. Arnar kom honum til aðstoðar ásamt lækni þýska landsliðsins. Þeim tókst að hjálpa manninum sem var kominn á fætur eftir leikinn.

Sænska liðið ákvað að bjóða honum í kvöldverð sænska liðsins þar sem hann fékk að hitta leikmenn liðsins. Hann fékk einnig áritaða treyju að gjöf.

Maðurinn heitir Antonio og býr í bænum Caserta á Ítalíu sem er rétt fyrir utan Napoli. Hann hefur lengi fylgt sænska liðinu eftir á mörgum stórmótum.

Antonio var sérstaklega ánægður með að fá faðmlag frá sínum uppáhaldsleikmanni sem er markvörðurinn Andreas Palicka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×