Enski boltinn

Leitar til lög­fræðinga vegna netníðs Bartons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eni Aluko hefur orðið fyrir barðinu á netníði Joeys Barton.
Eni Aluko hefur orðið fyrir barðinu á netníði Joeys Barton. getty/James Gill

Eni Aluko íhugar að fara í mál við Joey Barton vegna ummæla hans um hana á samfélagsmiðlum.

Barton hefur farið mikinn á Twitter undanfarnar vikur og verið sérstaklega ötull við að gagnrýna konur sem starfa sem álitsgjafar um fótbolta. Honum finnst ótækt að konur tjái sig um karlafótbolta og deilir þeirri skoðun sinni ítrekað með fylgjendum sínum.

Barton virðist vera sérstaklega í nöp við Aluko og gekk svo langt að líkja henni og öðrum álitsgjafa, Lucy Ward, við bresku raðmorðingjana Fred og Rose West. 

Barton birti líka nokkrar færslur um fjölskyldu Alukos. Hann hélt því meðal annars fram að faðir hennar, fyrrverandi þingmaður í Nígeríu, hefði auðgast á vafasaman hátt og hún hefði notað góðs af því.

Aluko hefur sagt færslur Bartons ósannar og hún hefur leitað til lögfræðinga og íhugar að fara í mál við hann.

Aluko hefur óttast um öryggi sitt og sagðist hafa flúið land vegna netníðs frá Barton og fleirum.

Barton hefur verið atvinnulaus síðan honum var sagt upp sem knattspyrnustjóra Bristol Rovers í lok október í fyrra. Hann stýrði liðinu í tæp tvö ár. Hann var áður stjóri Fleetwood Town.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×