Frá þessu greinir Reuters en fréttaveitan hefur eftir Haniyeh að hann muni ferðast til Kaíró til að ræða tillögurnar en sáttasemjarar frá Egyptalandi, Katar og Bandaríkjunum ræddu þær við við fulltrúa Ísrael í París.
Auk frelsun gísla í haldi Hamas eru tillögurnar sagðar fela í sér þrjú stig; í fyrstu myndu Hamas-liðar láta lausa almenna borgara sem var rænt 7. október síðastliðinn, þá hermenn og síðast lík þeirra gísla sem hefðu látist í haldi samtakanna.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sætir nú bæði þrýstingi frá Bandaríkjamönnum um að huga að því að binda enda á átökin og frá ástvinum gíslanna, sem telja samningaviðræður einu leiðina til að tryggja öryggi þeirra og lausn.
Netanyahu hefur sagt að Ísrael muni ekki samþykkja málamiðlun sem felur í sér að herinn hörfi frá Gasa og samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn hafa hótað því að slíta stjórnarsamstarfinu frekar en að ganga að samkomulagi sem felur ekki í sér algjöra tortímingu Hamas.