Skoðun

Stór­aukið fram­boð af ís­lensku­námi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir skrifar

Lykillinn að hverju samfélagi er tungumálið. Eitt af því sem ráðherranefnd um íslenskt mál hefur lagt ríka áherslu á er að stórauka aðgengi að menntun í íslensku. Fjarnám í íslensku á BA-stigi, sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli og háskólabrú fyrir innflytjendur eru meðal aðgerða í aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu sem ráðherranefndin kynnti í desember sl. Framangreindar aðgerðir eru á ábyrgð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og hafa þær þegar verið fjármagnaðar í gegnum Samstarf háskóla, en samstarf til eflingar íslensku og máltækni var eitt af áhersluatriðum í Samstarfi háskóla þegar það var kynnt á síðasta ári. Aðgerðirnar hafa það að markmiði að bæta aðgengi að námi í íslensku og að undirstrika samfélagslegt mikilvægi háskóla.

Nú þegar er byrjað að vinna að nokkrum verkþáttum í aðgerðaráætlun sem kynnt var í lok síðasta árs og er nú til umfjöllunar sem þingsályktunartillaga á Alþingi. Það er fagnaðarefni hvernig háskólarnir hafa tekið höndum saman í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni að bæta aðgengi að íslenskukennslu fyrir fjölbreytta nemendahópa. Það er sérstök ástæða til að hrósa háskólamálaráðherranum fyrir hversu góður gangur eru í málefnum íslenskunnar á hennar ábyrgðarsviði.

Ein aðgerðin snýr að sameiginlegu fjarnámi í íslensku sem öðru máli sem þróað er í samvinnu Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða. Innflytjendum gefst með þessu tækifæri til að stunda fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli og kennsla á hluta námsleiðarinnar hófst haustið 2023.

Aðgengi að íslenskunámi á háskólastigi verður bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs, samstarf Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri. Fyrstu námskeið voru kennd síðasta haust og stefnt er á að námsbrautin verði að fullu starfandi síðar á þessu ári.

Í haust verður svo farið af stað með nýja námsleið fyrir nemendur sem hafa grunn í íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Með þessu verður aðgengi innflytjenda að almennu háskólanámi bætt til muna en að þessu koma Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst.

Tunga hverrar þjóðar er spegill og andlit hennar er menntun. Orðin eru undirstaða tungumálsins en orðin geta ekki verið án einhverrar hugmyndar eða skilnings, viljum við sjá framfarir. Af því orðin leiða hugmyndir fólks í ljós, geta þau hvorki verið fleiri eða öðruvísi en hugmyndunum er samboðið. Séu hugmyndirnar þróttlitlar, óskýrar og á reiki, hljóta orðin að vera það líka. Þannig stendur mál hverrar þjóðar í nauðsynlegu hlutfalli við þá menntun sem hún hefur öðlast. Sé mál hennar orðfátt, má ganga að því vísu að sú þjóð sé ekki komin langt í menntun. Því hefur verið haldið fram að engin þjóð getur átt fagurt og vandað mál sem ekki leggi mikla alúð við menntun. Þannig skrifaði Þórður Jónasson, ritstjóri og dómstjóri, í fyrstu blaðgreininni um íslenskt mál, sem rituð var árið 1847 í Reykjavíkurpósti. Þessar hugleiðingar eru sígildar og eiga enn við í dag. Við verðum að halda áfram að auka framboðið að menntun í íslensku til þess að við sjáum Ísland þróast í þá átt sem við viljum, sem er hiklaust að allir hafi jöfn tækifæri í lífinu.

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×