Enski boltinn

Rúnar Alex sagður lenda í Kaup­manna­höfn

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson hefur varið mark Íslands í 27 A-landsleikjum.
Rúnar Alex Rúnarsson hefur varið mark Íslands í 27 A-landsleikjum. vísir

Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er á leið til danska knattspyrnufélagsins FC Kaupmannahafnar, nú þegar lánsdvöl hans frá Arsenal til Cardiff er lokið.

Þetta segir danski miðillinn bold.dk og kveðst hafa heimildir fyrir því. Miðillinn segir að Rúnar Alex verði annar markvörður FCK á eftir Kamil Grabara, en Grabara mun í sumar ganga til liðs við Wolfsburg í Þýskalandi.

Uppfært klukkan 13.23: B.T. segir að Rúnar Alex komi frítt til FCK og að samningur hans við félagið gildi til sumarsins 2027.

Rúnar Alex, sem er 28 ára gamall, var lánaður til Cardiff í haust og stóð til að hann yrði hjá Cardiff út tímabilið. Í morgun var greint frá því að svo yrði ekki, og að Cardiff væri að klófesta nýjan markvörð.

Ekki kemur fram í frétt bold.dk hvort Rúnar Alex komi til FCK að láni eða hvort Arsenal hafi selt hann, en samningur KR-ingsins fyrrverandi við Arsenal átti að gilda til næsta sumars.

Rúnar Alex hefur áður spilað í Danmörku því hann hóf atvinnumannsferil sinn með Nordsjælland þar sem hann var á árunum 2014-2018. Hann fór svo til Dijon í Frakklandi og þaðan til Arsenal árið 2020 og gerði samning til fjögurra ára. Frá Arsenal hefur Rúnar Alex farið að láni til OH Leuven í Belgíu, Alanyaspor í Tyrklandi og nú síðast Cardiff en hann lék aðeins sex leiki með velska liðinu í ensku B-deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×