Þetta kom fram í Pallborðinu á Vísi þar sem jarðvísindamennirnir Kristín Jónsdóttir og Magnús Tumi ásamt bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbjartsdóttur, ræddu um þá ógn sem íbúum höfuðborgarsvæðisins kann að stafa af eldsumbrotum og jarðskjálftum sem og stöðuna við Grindavík.

Magnús rifjaði upp síðustu hrinu eldgosa á Reykjanesskaga sem stóð í um 400 ár, á tímabilinu frá því fyrir árið 900 og fram yfir árið 1300. Umfang þessarar hrinu, sem og þeirrar sem var þar á undan, fyrir um 2000-2500 árum, og var svipuð að umfangi, sagði hann bestu dæmin um við hverju mætti búast.
„Þetta er nokkurra alda spil,“ sagði Magnús Tumi.
„Og ef við horfum á hvernig þau hafa hegðað sér þessi kerfi, þá virðist vera að það sé eitt í gangi í einu.“

Þá megi reikna með því að undirbúningstíminn í kerfi eins og Krýsuvíkurkerfinu verði langur, eins og gerðist í Fagradalsfjalli.
„Það eru nokkur ár af verulegum, vaxandi skjálftum. Svo fer að koma innstreymi kviku. Þá fer af stað landris. Þetta tekur allt töluverðan tíma.
Á hverjum mannsaldri eru kannski eitt eða tvö kerfi sem eru virk. Svo koma mannsaldrar þar sem ekkert er í gangi.
Það voru engin gos á skaganum frá árinu 1000 til 1150, - bara sem dæmi. Goðin voru greinilega orðin róleg.“
Í þessum kafla í Pallborðinu skýrir Magnús Tumi hversvegna hann telur ótímabært að byggja upp varnargarða við Hafnarfjörð:
Hér má sjá Pallborðið í heild þar sem sérstaklega var rætt um ógn þá sem íbúum Reykjavíkursvæðisins gæti stafað af eldsumbrotum og jarðskjálftum: