Fótbolti

Fellaini leggur skóna á hilluna

Siggeir Ævarsson skrifar
Marouane Fellaini fagnar marki með Robin van Persie
Marouane Fellaini fagnar marki með Robin van Persie Vísir/Getty

Hinn 36 ára Marouane Fellaini hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, en þessi fyrrum leikmaður Manchester United og Everton hefur leikið í Kína síðan 2019.

Fellaini hóf feril sinn í ensku úrvalsdeildinni hjá Everton þar sem hann lék 141 deildarleik. Þegar David Moyes færði sig um set frá Everton og tók við stjórnartaumunum hjá United var Fellaini fyrsti leikmaðurinn sem hann bætti í hópinn fyrir 27,5 milljónir punda haustið 2013. Reyndust þetta reyndar einu kaup Moyes í þeim sumarglugga.

Fellani lék alls sex tímabil með United, 119 deildarleiki og skoraði tólf mörk. Stuðningsmenn United voru mishrifnir af frammistöðu hans og þá ekki síst þegar stjórar liðsins ákváðu að henda honum í framlínu liðsins undir lok leikja í þeirri veiku von að hann gæti skallað boltann í rétta átt.

Fellaini átti engu að síður hlut í nokkrum af þeim fáu titlum sem United hafa náð í hús á síðustu árum og vann Evrópudeildina, bikarinn og deildarbikarinn með liðinu.

Eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við liði United lék Fellaini aðeins samtals 31 mínútu undir hans stjórn og var síðan seldur til Shandong Luneng í Kína fyrir um 10 milljónir punda. Þar lék hann 114 deildarleiki og skoraði í þeim 40 mörk. Shandong Luneng urðu þrisvar sinnum bikarmeistar á þessum tíma og lyftu meistaratitlinum einu sinni.

Fellaini kvaddi formlega með löngum pósti á Instagram sem má lesa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×