Enski boltinn

Viður­kennir að stjarnan verði lík­lega seld í sumar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ivan Toney er búinn að skora tvö mörg í þremur leikjum síðan hann sneri aftur úr átta mánaða leikbanni.
Ivan Toney er búinn að skora tvö mörg í þremur leikjum síðan hann sneri aftur úr átta mánaða leikbanni. Vísir/Getty

Thomas Frank knattspyrnustjóri Brentford viðurkennir að líklegast sé að framherjinn Ivan Toney verði seldur frá félaginu í sumar. Toney á eitt ár eftir af samningi sínum við Brentford.

Ivan Toney er nýlega snúinn til baka á knattspyrnuvöllinn eftir átta mánaða fjarveru vegna leikbanns. Hann var dæmdur í leikbann fyrir brot á reglum enska knattspyrnusambandsins um veðmál og lék sinn fyrsta leik eftir bannið gegn Nottingham Forest þann 20. janúar.

Toney á eitt ár eftir af samningi sínum við Brentford en hann hefur skorað 65 mörk í 113 leikjum fyrir Brentford og lék sinn fyrsta landsleik fyrir England á síðasta ári.

Toney hefur meðal annars verið orðaður við Arsenal og Chelsea á síðustu vikum og í viðtali við danska Tipsbladet í dag viðurkenndi knattspyrnustjórinn Thomas Frank að líklega verði Toney seldur frá Brentford í sumar.

„Það er frekar augljóst að Toney verður seldur í sumar. Við vitum hvers virði hann er og ég held það séu ekki margir framherjar í heiminum sem eru betri en hann í aungablikinu.“

Eins og áður segir á Toney ár eftir af samningi sínum við Brentford sem þarf því að selja í sumar ætli þeir sér að fá pening fyrir framherjann knáa.

„Hann er mjög hæfileikaríkur framherji og á besta aldri knattspyrnumanns. Ég myndi vilja halda honum en einhvern daginn væri gaman að sjá hann í toppliði,“ sagði Frank og bætti við að ekkert tilboð hefði borist í Toney í félagaskiptaglugganum í janúar.

„Það kæmi mér samt á óvart ef það verða ekki mörg félög áhugasöm um hann.“

Í sumar sagði Frank að hann teldi Toney vera allt að 100 milljón punda virði og sjálfur hefur Toney sagt að hann vijli spila fyrir topplið einhvern tíman á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×