Talsmaður forsætisráðherra Íraks segir loftárásir Bandaríkjanna þar í landi muni leiða til þess að ríkisstjórnin bindi enda á veru bandarískra hermanna þar. Hann sagði Bandaríkjamenn auka á óreiðu í Írak og ógna því að átök hefjist í landinu.
Bandarískir hermenn í Írak hafa orðið fyrir fjölmörgum árásum þar í landi frá vopnahópum, sem eru formlegur hluti af írakska hernum en eru studdir og jafnvel fjármagnaðir af yfirvöldum í Íran og tengjast klerkastjórninni nánum böndum. Hóparnir stýra sér að mestu sjálfir.
Hóparnir voru myndaðir þegar baráttan gegn vígamönnum ISIS stóð hvað hæst. Her Bandaríkjanna hefur svarað þessum árásum með loftárásum innan landamæra Íraks.
Sjá einnig: Ræða veru bandarískra hermanna í Írak
Margir þeirra vígahópa sem Íranar styðja í Mið-Austurlöndum hafa myndað nokkurs konar regnhlífarsamtök sem kallast Íslamska andspyrnuhreyfingin. Þessir hópar eru sagðir hafa gert að nærri því 170 árásir á bandaríska hermenn
Meðlimir Kataib Hezbollah í Írak, hafa verið hvað umsvifamestir þegar kemur að árásum á bandaríska hermenn. Hópurinn gerði drónaárás á bandaríska herstöð í Jórdaníu í síðasta mánuði sem þrír bandarískir hermenn féllu í.
Þá lýstu forsvarsmenn hópsins því yfir að árásum á bandaríska hermenn yrði hætt, að virðist að beiðni yfirvalda í Írak. Bandaríski herinn gerði svo seinna loftárásir á sveitir Írans og hópa þeim tengdum í Mið-Austurlöndum. Þar á meðal var Kataib Hezbollah en árásirnar þótt mjög fyrirsjáanlegar og fáir féllu í þeim.
Sjá einnig: Bandaríkin svara fyrir sig með loftárásum í Írak og Sýrlandi
Í gær var Wissam Muhammad Sabir Al-Saadi, sem einnig gengur undir nafninu Abu Baqir Al-Saadi, í bíl í Bagdad og varð bíllinn fyrir eldflaug. Hann stýrði aðgerðum Kataib Hezbollah í Sýrlandi.
Í yfirlýsingu frá bandaríska hernum segir að svo virðist sem engir óbreyttir borgarar hafi hlotið skaða af árásinni en samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar féllu þrír meðlimir KH í árásinni, að Al-Saadi meðtöldum.
„Við munum ekki hika við að draga alla þá sem ógna öryggi hermanna okkar til ábyrgðar,“ stóð í yfirlýsingunni.
USCENTCOM Conducts Strike Killing Kata ib Hezbollah Senior Leader
— U.S. Central Command (@CENTCOM) February 7, 2024
At 9:30 p.m. (Baghdad Time) February 7, U.S. Central Command (CENTCOM) forces conducted a unilateral strike in Iraq in response to the attacks on U.S. service members, killing a Kata ib Hezbollah commander pic.twitter.com/Zhkjimx5UG
Wall Street Journal hefur eftir heimildarmönnum í Washington DC að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hafi samþykkt árás á Al-Saadi í síðustu viku. Þá hafi ráðamenn í Írak verið látnir vita af árásinni, rétt eftir en hún var framkvæmd í gær.