Handbolti

FH styrkti stöðu sína með sigri á botn­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson var öflugur að venju.
Ásbjörn Friðriksson var öflugur að venju. Vísir/Pawel

FH lagði botnlið Selfoss í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Þá unnu Haukar góðan sigur á Víking.

Topplið FH fór suður fyrir fjall og sótti Selfoss heim í kvöld. Var leikurinn óvænt nokkuð jafn framan af en staðan var 7-7 þegar rétt rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar. Gestirnir úr Hafnafirði skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörk leiksins og staðan 7-10 í hálfleik.

Sóknarleikur beggja liða skánaði töluvert í síðari hálfleik en FH-ingar héldu heimamönnum í hæfilegri fjarlægð og unnu á endanum fimm marka sigur, lokatölur 21-26.

Ásbjörn Friðriksson fór fyrir sínum mönnum í FH en hann var markahæstur með 8 mörk. Þar á eftir kom Jóhannes Berg Andrason með 7 mörk. Í markinu var Daníel Freyr Andrésson með 47 prósent markvörslu en hann varði 18 skot. Hjá heimamönnum skoraði Gunnar Kári Bragason 5 mörk.

FH er nú með 27 stig á toppi deildarinnar, þremur meira en Valur þegar bæði lið hafa leikið 15 leiki. Selfoss er á botninum með 6 stig.

Á Ásvöllum voru Víkingar í heimsókn. Þar fór það svo að Haukar unnu sex marka sigur, lokatölur 28-22. Adam Haukur Baumruk var markahæstur hjá Haukum með 9 mörk á meðan Halldór Ingi Jónasson skoraði 6 mörk í liði Víkings.

Haukar eru í 6. sæti með 16 stig og Víkingur í 11. sæti með 6 stig líkt og botnliðið. Bæði lið eru þremur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×