Enski boltinn

Gleymdu að ýta á senda takkann og McGuire fer ekki fet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Duncan McGuire lék sinn fyrsta landsleik á dögunum en hann fær ekki að spila í enska boltanum á þessu tímabili.
Duncan McGuire lék sinn fyrsta landsleik á dögunum en hann fær ekki að spila í enska boltanum á þessu tímabili. Getty/Brien Aho

Bandaríski landsliðsmaðurinn Duncan McGuire ætlaði að klára tímabilið með Íslendingaliðinu Blackburn Rovers í ensku b-deildinni en ekkert verður að því.

Það var þó ekki af því að leikmaðurinn eða liðin vildu það ekki heldur vegna mistaka á skrifstofu enska félagsins.

McGuire átti að fara á láni í sex mánuði frá Orlando City til Blackburn og bandaríska félagið hafði meira að segja tilkynnt um brottför framherjans.

Blackburn klúðraði hins vegar algjörlega málunum með því að gleyma að ýta á senda takkann þegar allir pappírarnir voru klárir. Starfsmaður Blackburn vistaði upplýsingarnar í kerfinu en áttaði sig ekki á því að hann þurfti að ýta á senda líka.

Gögnin skiluðu sér því ekki áður en félagsskiptaglugginn lokaði 1. febrúar síðastliðinn og enska deildin samþykkti þau þar af leiðandi ekki.

Blackburn áfrýjaði því og reyndi að fá undanþágu vegna þessara mistaka en yfirmenn ensku deildarkeppninnar höfnuðu þeirri beiðni í gær.

McGuire er 23 ára og 185 sentimetra framherji sem snýr nú aftur til Flórída til að spila áfram með Orlando City.

McGuire skoraði 13 mörk í 16 deildarleikjum með Orlando á síðustu leiktíð og spilaði sinn fyrsta A-landsleik í síðasta mánuði.

Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson spilar með Blackburn Rovers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×