Þrír rifflar sem fundust heima hjá Sindra Snæ Birgissyni, sem sætir ákæru fyrir tilraun til hryðjuverka og fjölda vopnalagabrota, hafa leikið stórt hlutverk í aðalmeðferð hryðjuverkamálsins síðustu tvo daga.
Annars vegar hefur verið bitist um hver eigi rifflana og hins vegar hvers eðlis þeir eru. Ákæruvaldið byggir á því að Sindri Snær hafi verið raunverulegur eigandi rifflanna og tveir þeirra sé svokallaðir árásarrifflar.
Sindri Snær og allir í hans herbúðum hafa aftur á móti sagt að faðir hans, Birgir Ragnar Baldursson, sé eigandi rifflanna. Þá hóf Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs, aðalmeðferðina á að benda Karli Inga Vilbergssyni, sækjanda í málinu, á það að „mistök“ hafi verið gerð við samningu ákærunnar. Þar væru tveir rifflar kallaðir árásarrifflar en þeir væru hlutrænt séð ekki slík vopn.

Bannað að mynda rifflana
Fyrir dóminn var kallaður Ágúst Bjarki Magnússon, tæknifræðingur sem rannsakaði rifflana, og rifflarnir voru lagðir fram í dómsal. Viðstaddir blaðamenn og ljósmyndarar urðu fyrir nokkrum vonbrigðum þegar tveir lögreglumenn læddu rifflunum inn bakdyramegin á meðan dómarar voru inni í dómsal. Ljósmyndataka er nefnilega stranglega bönnuð á meðan dómarar eru inni í dómsal.
Ágúst sagði að við rannsókn á AR-15 rifflinum hafi komið í ljós að gat hafði verið borað í hlaup riffilsins og gasröri komið fyrir í honum. Það geri það að verkum að riffillinn verði hálfsjálfvirkur. Þannig þurfi ekki að hlaða hann handvirkt á milli skota heldur eingöngu taka í gikkinn.
Sindri sé „gormur“
Þetta sagði hann vera tiltölulega einfalda aðgerð fyrir mann sem væri sæmilega flinkur í höndunum. Sindri Snær lýsti því fyrir dómi í gær að hann hefði frá barnæsku haft mikinn áhuga á alls konar fikti með vélar og annað slíkt. Hann hafi til að mynda byrjað að taka fjarstýrða bíla í sundur þegar hann var fjögurra ára gamall. Þá sagði faðir hans í morgun að hann væri „gormur“, hugsaði út fyrir boxið og væri sniðugur strákur.
Sindri Snær og faðir hans fóru fyrir dómi ekki í neinar grafgötur með það að Sindri Snær hefði borað gat á riffilinn og gert hann hálfsjálfvirkan. Hann hefði aftur á móti breytt honum aftur til baka í einskotariffil eftir að hafa notað hann einu sinni á skotsvæði í Höfnum.
Sérfræðingurinn Ágúst Bjarki sagði hins vegar að riffillinn sem lá frammi í dómsal hafi enn verið hálfsjálfvirkur þegar hann rannsakaði gripinn.
Sækjandi spurði hversu mörgum skotum mætti skjóta úr rifflinum á tíu sekúndum. Heilu „magasíni“ eða þrjátíu skotum, sagði sérfræðingurinn.