Þetta segir í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina. Þar segir að tilkynnt hafi verið um unglinga til vandræða fyrir utan verslun í austurborg Reykjavíkur. Unglingarnir hafi verið farnir á brott þegar lögreglu bar að garði.
Seinna hafi aftur verið tilkynnt um hópamyndun unglinga ungmenna fyrir utan verslun í austurborginni. Piltur vopnaður exi hafi verið sagður vera í þeim hópi. Hann hafi verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem vopnið var haldlagt. Eftir viðræður á lögreglustöð hafi hann verið frjáls ferða sinna. Forráðamönnum og barnavernd hafi verið gert viðvart um málið.
Unglingar sífellt til vandræða í austurborginni
Þá segir að enn hafi verið tilkynnt um ölvuð ungmenni til vandræða við verslun í austurborginni. Þau hefðu meðal annars verið að stela sér til matar. Þeim hafi verið sleppt eftir viðræður en forráðamönnum og barnavernd gert viðvart um málið.
Loks hafi verið tilkynnt um unglinga ráðast að fólki við verslun í austurborginni.
Líka til vandræða annars staðar
Þá segir frá því að tilkynnt hafi verið um ungmenni samankomin í ótilgreindri verslunarmiðstöð á ótilgreindum stað. Einn hafi verið vopnaður hníf, sem hafi verið haldlagður. Sá vopnaði hafi verið látinn laus eftir viðræður en forráðamenn hans og barnavernd látin vita.