Breiðfylking stéttarfélaga sleit kjaraviðræðum við SA á sjötta tímanum síðdegis í gær. Talsmenn fylkingarinnar segja að búið hafi verið að semja um 90 prósent samningsins, þar á meðal launaliðinn, en viðræður strandað á forsenduákvæði, sem tryggja átti að launafólk tæki ekki skellinn rætist ekki úr markmiðum samningsins um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta.
„Okkur finnst mjög miður að breiðfylkingin hafi ákveðið að slíta viðræðunum á þessum tímapunkti, enda vorum við langt komin með það að gera kjarasamning. Við héldum í hreinskilni sagt að við myndum ljúka þessu verkefni í næstu viku. Þótt viðræðum sé hætt í bili erum við hjá Samtökum atvinnulífsins að sjálfsögðu reiðubúin sem fyrr að halda þessu samtali áfram,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hvað er það í þessum kröfum stéttarfélaganna sem þið getið ekki fallist á?
„Ég held að það sé mikilvægt að komi fram að forsenduákvæði eru auðvitað bara eðlilegur hluti af langtímakjarasamningum. Samtök atvinnulífsins lögðu í þessu ferli til slík ákvæði í samræmi við þá kjarasamninga sem áður hafa verið gerðir,“ segir Sigríður Margrét.
„En forsenduákvæði geta ekki falið í sér verðtryggingu launa eða beina tengingu við stýrivexti Seðlabankans vegna þess að slík ákvæði myndu vinna gegn markmiðum samningsins, sem hafa verið yfirlýst um það að gera og skapa aðstæður til að ná niður verðbólgu, svo Seðlabankinn geti lækkað vexti. Við getum ekki haft inni árlegt uppsagnarákvæði sem byggir á því hvort Seðlabanki Íslands lækki vexti. Það er einfaldlega ekki viðeigandi kjarasamningur.“
Hún segir samningsaðila sammála um mun fleira en það sem þeir eru ósammála um.
Telurðu líklegt að komi til verkfalla?
„Ég ætla að leyfa mér að vona það að okkur takist að halda áfram með þetta verkefni enda er ákall eftir efnahagslegum stöðugleika, að fólk geti gert framtíðaráætlanir sem halda. Það er einfaldlega mikið í gangi í íslensku samfélagi í dag. Ég held að ófriður á vinnumarkaði og átök séu einfaldlega ekki það sem þjóðin á skilið á þessum tímapunkti.“