Á vef Veðurstofunnar segir að ekki verði mikil úrkoma né mjög hvasst en að það muni kólna tímabundið í kvöld og nótt.
Gera má ráð fyrir norðan 8 til 15 metrum á sekúndu í dag, en staðbundið 15 til 20 metra á sekúndu austan Öræfa. Er búist við að nái 30 metrum á sekúndu í hviðum austan Öræfa.
Él, en bjart með köflum sunnan- og vestantil. Hiti verður nálægt frostmarki og mun lægja heldur, létta til og kólna talsvert í kvöld.
Gul veðurviðvörun er í gildi á Suðausturlandi vegna norðvestan hvassviðrisins milli klukkan 10 og 19 í dag. Er veðrið talið varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Svo er að sjá að það hlýni með suðlægum áttum þegar nær dregur helgi og benda spár til að það geti staðið fram yfir helgi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Suðvestan 3-8 m/s, en 8-13 norðvestanlands og dálítil snjókoma vestantil um tíma, en annars bjartviðri að mestu. Hiti um og yfir frostmarki suðvestantil, en frost annars 1 til 6 stig.
Á fimmtudag: Hæg breytileg átt og þurrt að kalla, en suðaustan 5-10 m/s suðvestanlands um kvöldið. Frostlaust syðst, en frost annars 0 til 8 stig, mest inn til landsins.
Á föstudag: Suðaustanstrekkingur og slydda eða rigning seinnipartinn, en hægari og þurrt norðaustantil. Hlýnandi veður.
Á laugardag: Suðaustanátt með rigningu, einkum seinnipartinn, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti víða 2 til 7 stig.
Á sunnudag og mánudag: Suðlæg átt, væta á köflum og hiti 0 til 5 stig.