Viðskipti innlent

Af­koma ársins undir áður út­gefnu afkomubili

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Afkoma Sýnar 2023 var undir markmiðum.
Afkoma Sýnar 2023 var undir markmiðum. Vísir/Hanna

EBIT afkoma ársins hjá Sýn, fyrir utan hagnað vegna sölu stofnnets, verður undir áður útgefnu afkomubili. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun fyrirtækisins til Kauphallarinnar.

Þar segir að við vinnslu á samstæðuuppgjöri Sýnar hf. vegna ársins 2023 liggi fyrir að einskiptisliðir upp á um 840 milljónir króna, sem ákveðið hefur verið að gjaldfæra á árinu 2023, hafi afgerandi áhrif á afkomu ársins. EBIT afkoma ársins, fyrir utan hagnað vegna sölu stofnnetsins, verður undir áður útgefnu afkomubili, 2.200 til 2500 milljónir króna.

Samkvæmt uppgjörsdrögum er EBIT afkoma ársins því um 1.108 milljónir króna án hagnaðar vegna sölu á stofnneti upp á 2.436 milljónir króna. Leiðrétt fyrir einskiptisliðum er rekstrarafkoma félagsins á árinu 2023 um 1.948 milljónir króna. Félagið hafði áður gefið út að EBIT afkoma félagsins myndi vera við neðri mörk afkomubils.

Þá segir í afkomuviðvöruninni að af einskiptisliðum vegi þyngst afskriftir sýningarrétta, afskriftir eigna hjá innviðum og kostnaður vegna starfsloka fráfarandi forstjóra, auk starfsloka annarra starfsmanna í tengslum við hagræðingaraðgerðir.

Heildar EBIT afkoma ársins að meðtöldum hagnaði vegna sölu stofnnets er samkvæmt uppgjörsdrögum um 3.544 milljónir króna. Ársuppgjör félagsins er enn í vinnslu, er óendurskoðað og getur tekið breytingum fram að birtingu. Uppgjör ársins 2023 verður birt eftir lokun markaða þann 27. febrúar 2024, að því er segir í afkomuviðvöruninni.

Vísir er í eigu Sýnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×