Innlent

„Þetta er allt á hreyfingu“

Oddur Ævar Gunnarsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Páll segir skrítið að vera í Grindavík vegna sprunguvirkni í bænum.
Páll segir skrítið að vera í Grindavík vegna sprunguvirkni í bænum. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitarmaður sem var á vakt í Grindavík í dag segir jörðina enn á hreyfingu í bænum. Hann segist merkja breytingar í þessari frá þeirri síðustu, hús halli meira og merki um jarðhræringar sjáist á malbiki.

„Nú er ég bara amatör í þessu en þetta er allt á hreyfingu sýnist manni,“ segir Páll Halldór Halldórsson, björgunarsveitarmaður frá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi sem var á vakt í Grindavík í dag.

„Ég sé alveg mun. Ég kem hérna viku seinna, þá sé ég breytingu á malbikum, maður sér að hús hafa hallast meira. Það er skrítið að vera hérna, það er ágætt að vera hérna með ágætis varúð. Mér allavega líður betur með að vera pínu hræddur, það er ágætt.“

Fólk gangi þekktar leiðir

Eins og fram hefur komið uppfæra almannavarnir reglulega hættumat sitt vegna jarðhræringa í Grindavík, þar sem tekið er mið af hættumati Veðurstofunnar. Gert er ráð fyrir rýmri aðgengi íbúa Grindavíkur að bænum næstu daga.

„Við höfum veirð til taks fyrir fólk hér í dag sem er að koma í hús sín,“ segir Páll. Hann var að aðstoða íbúa við Túngötu þegar fréttastofa ræddi við hann. Við endann á götunni er bannsvæði.

„Það eru stórar sprungur þar í kring og það er girt af að hluta. Þannig það er gott að hafa alla varúð þar á. Við höfum beðið fólk um að vera ekki að fara í gamni sínu út í garð og svona. Það er ágætt að labba bara þessar þekktu leiðir frá götunni inn í húsin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×