Erlent

Segir ham­farir myndu fylgja í kjöl­far inn­rásar Ísraels­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ibrahim Hasouna missti átta ástvini í árásum Ísraelsmanna, þegar ráðist var í aðgerðir til að frelsa gísla í haldi Hamas. Hasouna segir húsið þar sem ættingjar hans dvöldu hins vegar hafa verið langt frá þeim stað þar sem gíslunum var haldið.
Ibrahim Hasouna missti átta ástvini í árásum Ísraelsmanna, þegar ráðist var í aðgerðir til að frelsa gísla í haldi Hamas. Hasouna segir húsið þar sem ættingjar hans dvöldu hins vegar hafa verið langt frá þeim stað þar sem gíslunum var haldið. AP/Fatima Shbair

Enn eykst þrýstingur á Ísraelsmenn um að falla frá áformum sínum um að ráðast inn í Rafah í suðurhluta Gasa en Martin Griffiths, yfirmaður mannúðarmála og neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, segir afleiðingarnar yrðu hamfarir.

Griffiths sendi frá sér óvenju harðorða yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði að Palestínubúar á Gasa hefðu nú þegar mátt sæta árás sem væri fordæmalaus hvað varðaði umfang og hörku. Yfir milljón manns dveldu nú í Rafah og „störðu í andlit dauðans“.

Griffiths sagði mat og lyf af skornum skammti og að menn gætu hvergi farið. Innrás inn yrði dauðadómur yfir öllu hjálparstarfi á svæðinu.

Stephane Dujarric, talsmaður Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sagði Ísraelsmenn ekki hafa lagt fram neina áætlun um rýmingu svæðisins og að Sameinuðu þjóðirnar myndu ekki taka þátt í að flytja fólk á brott.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur varað Ísrael við því að ráðast inn í Rafah án þess að grípa til ráðstafana til að vernda almenna borgara. Þá hefur David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Breta og núverandi utanríkisráðherra, hvatt Ísraelsmenn til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir láta til skarar skríða.

Cameron sagði á breska þinginu í gær að Ísrael væri að brjóta alþjóðalög ef það tryggði ekki íbúum Gasa vatn og mat. Þá væri hreinlega ómögulegt að rýma Rafah fyrir fyrirhugaða innrás, líkt og Ísraelar hafa talað um.

Ráðherrann sagði Bandaríkjamenn farna að íhuga að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki, án samþykkis Ísraels. Ísraelsmenn ættu ekki að hafa neitunarvald hvað þetta varðaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×