Körfubolti

„Við lögðum líf og sál í þetta“

Siggeir Ævarsson skrifar
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, var þungur á brún á hliðarlínunni í kvöld
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, var þungur á brún á hliðarlínunni í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, bar það utan á sér eftir leik að tapið í kvöld gegn Keflavík var sérstaklega sárt. Lokatölur leiksins 72-76 eftir hörkuspennandi lokamínútur.

„Bara gríðarlega sárt. Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik og í rauninni bara spiluðum vel í þessum leik í heild. Litlir hlutir sem að skera úr um þetta.“

Ingvari varð tíðrætt um þessa litlu hluti, en þeir féllu margir hverjir með Keflavík að þessu sinni þegar kom að dómsgæslunni. Ingvar vildi þó ekki skrifa tapið á dómgæsluna.

„Þú sást það, ég held að það hafi allir séð það. Mér fannst þær fá ansi auðveld köll, sérstaklega í seinni hálfleik. Það var orðinn smá pirringur í því. En þetta er ekkert kannski sem sker úr um leikinn, hann hefði getað dottið hvoru megin sem var. Þær taka 14 sóknarfráköst, þau eru dýr hérna í lokin. Við erum yfir, þær taka sóknarfrákast og skora og jafna leikinn. Litlu hlutirnir sem að kannski fóru með okkur.“

Haukar virðast vera að ná vopnum sínum. Voru hársbreidd frá því að leggja toppliðið í kvöld og í hörkuleik á móti Grindavík í síðastu umferð. Ingvar sagði að þessu fylgdu blendnar tilfinningar, að eiga í fullu tré við þessi lið en ná samt ekki að landa sigrinum þegar á reynir.

„Eiginlega akkúrat það. Ég er stoltur af þeim í kvöld. Við lögðum líf og sál í þetta, eins á móti Grindavík, sérstaklega í seinni hálfleik þar. Hundfúlt að ná ekki að klára þetta.“

Keira Robinson gat jafnað leikinn af vítalínunni í lokin en brenndi af fyrra vítinu og ákvað að klikka viljandi á því seinna og freista þess að ná sóknarfrákastinu. Það plan gekk alls ekki upp, en á þessum tímapunkti voru um tíu sekúndur eftir af leiknum.

Ingvar sagði að hann hefði alls ekki teiknað þessa senu upp.

„Ég var jafn hissa á þessu og þú! Hún hefur ætlað að setja hann í hringinn og ná frákastinu sjálf þar sem fyrra klikkaði. En leikurinn fer ekkert þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×