Stjarnan vann Njarðvík í Subway-deild kvenna í fyrrakvöld, 77-73 og varð þar með fyrsta liðið til að vinna Njarðvík síðan í nóvember á síðasta ári. Ísold var frábær á þriðjudagskvöldið en hún endaði stigahæst með tuttugu stig og gaf líka átta stoðsendingar á liðsfélaga sína.
„Þetta var alveg afskaplega gaman og sérstaklega af því að við spiluðum svo ógeðslega vel saman. Ég held að þetta hafi verið einn besti leikurinn okkar í vetur. Að vinna svona sterkt lið er alltaf skemmtilegt,“ sagði Ísold Sævarsdóttir í viðtali við Stefán Árna Pálsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Ég geri þetta náttúrulega ekki ein. Hinar hjálpa til og búa til færi fyrir mig. Við spiluðum vel saman og mér leið bara vel í gær (fyrrakvöld),“ sagði Ísold og hún hefur staðið sig vel í djúpu lauginni í Subway deild kvenna í vetur.
„Reynslan að keppa í meistaraflokki er búin að gefa mér fullt af tækifærum. Það kemur manni svona langt,“ sagði Ísold. Hún lék sína fyrstu A-landsleiki í lok síðasta árs.
Auk þess að vera frábær körfuboltakona þá er Ísold ein fremsta frjálsíþróttakona landsins. Hún keppir þar í sjöþraut og varð til að mynda Norðurlandameistari árið 2022. Hún er fæddi árið 2007 og verður sautján ára á laugardaginn.
„Ég er að missa mikið úr en þjálfararnir eru í góðum samskiptum. Það er mjög erfitt að finna tíma fyrir báðar íþróttir en við erum að reyna okkar besta,“ sagði Ísold. En ætlar hún að velja á milli körfuboltans eða frjálsra íþrótta?
„Ég bara veit ekki svarið við spurningunni en það eru allir að spyrja. Það kemur bara í ljós,“ sagði Ísold brosandi og hún vill ekki gefa upp hvort henni finnst skemmtilegra körfuboltinn eða sjöþrautin?
„Ég bara svara þessu ekki,“ sagði Ísold hlæjandi og bætir við: „Það er misjafnt en það fer eftir því hvernig gengur,“ sagði Ísold en hvaðan kemur íþróttaáhugi hennar?
„Mér finnst svo skemmtilegt til dæmis að gera hluti undir pressu og í keppni. Aðallega vegna þess að þegar maður vinnur þá er það svo skemmtilegt,“ sagði Ísold.