Enski boltinn

Reiðilesturinn um sam­lokuna kom Wilder í vand­ræði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Wilder, knattspyrnustjóri Sheffield United, getur ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni.
Chris Wilder, knattspyrnustjóri Sheffield United, getur ekki leynt vonbrigðum sínum á hliðarlínunni. Getty/Catherine Ivill

Chris Wilder, knattspyrnustjóri Sheffield United, hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli sína um dómara eftir 3-2 tapleik á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði.

Wilder var mjög ósáttur með ákvarðanir dómarann í leiknum og sagði að frammistaða Tony Harrington hafi verið út í hött. Hann talaði líka um það við fjölmiðla að dómarar væri líklegri til að dæma gegn félagi hans.

Wilder er ákærður af aganefnd sambandsins fyrir að saka dómara um hlutdrægni eða draga efa á heiðarleika þeirra.

Wilder reiddist mikið yfir því að markvörður hans, Ivo Grbic, þurfti að yfirgefa völlinn með heilahristing eftir samstuð við Jean-Philippe Mateta hjá Palace. Mateta fékk ekki gult spjald.

„Þetta er enn ein fáránlega frammistaðan frá dómaranum. Ég fékk að vita það frá dómara, sem er eins heiðarlegur og þeir finnast, að ég yrði að vera tilbúinn að því að allar 50-50 ákvarðanir myndu ekki falla með mér,“ sagði Chris Wilder, eftir leikinn.

„Þeirra maður tekur markvörðinn okkar út úr leiknum. Það skiptir engu máli hvort að þetta hafi verið slys eða ekki. Þetta er alltaf gult spjald. Allar tæpar ákvarðanir voru á móti okkur,“ sagði Wilder.

„Ég er ekki að horfa bara á síðustu tíu leiki heldur yfir lengra tímabil og áður en ég kom hingað. Kannski hugsa þeir: Þeir verða ekki lengi í deildinni og ég mun kannski dæma hjá hinum liðinu á næsta ári,“ sagði Wilder.

Wilder nefndi það líka að einn dómaranna í leiknum hafi sýnt sér virðingarleysi þegar hann fór að ræða málin eftir leikinn.

„Ég fór til dómarans og sagði honum mína skoðun. Einn af aðstoðarmönnum hans var að borða samloku og mér fannst hann með því sýna mér virðingarleysi. Vonandi naut hann samlokunnar á meðan hann var að tala við knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Wilder.

Samlokuummælin hafa fengið enska miðla til að kalla það samloku-gate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×