Erlent

Möðkum rigndi yfir far­þega og vélinni snúið við

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Forsvarsmenn flugfélagsins ákváðu að þrífa vélina sem um ræðir.
Forsvarsmenn flugfélagsins ákváðu að þrífa vélina sem um ræðir. EPA-EFE/JIM LO SCALZO

Farþegaflugvél bandaríska flugfélagsins Delta sem var á leið til Detroit í Bandaríkjunum frá Amsterdam á þriðjudag var snúið við í snarhasti eftir að möðkum tók að rigna yfir farþega.

Í umfjöllun Guardian segir að í ljós hafi komið að einn farþega hafi haft með sér um borð rotinn fisk. Fiskurinn var í handfarangri mannsins sem hann kom fyrir í handfarangursrými vélarinnar yfir hausamótum farþega.

Rætt er við Philip Schotte, hollenskan mann sem búsettur er í Iowa í Bandaríkjunum, sem segist hafa orðið vitni af því hvernig maðkar féllu úr handfarangursými og yfir konu sem sat í sakleysi sínu í sæti sínu.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég hugsaði. Ég var að reyna að melta þetta, en viðbjóður er eitthvað sem augljóslega kom upp í hugann,“ segir Schotte. 

Hann segir flugþjóna vélarinnar hafa verið fljóta að komast að því hvaðan maðkarnir komu. Þeir hafi fundið hinn úldna fisk umvafinn dagblaðapappír. Fisknum var hent í kjölfarið og farþegum tilkynnt að vélinni yrði snúið við aftur til Amsterdam.

Tveir tímar voru liðnir af átta tíma löngu flugi þegar henni var snúið við. Fram kemur í umfjöllun Guardian að Delta hafi beðið farþega sína afsökunar vegna málsins. Vélinni hafi verið snúið við vegna illa pakkaðs handfarangurs.

Öllum farþegum hafi verið fundið nýtt flug en flugvélin var þrifin hátt og lágt vegna málsins. Þá hefur miðillinn eftir einum farþega að þeir hafi fengið afsláttarkjör í sárabætur, hótelgistingu og matarmiða vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×