Innlent

Skjálfta­hrina norð­vestur af Eld­ey

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eldey er 15 kílómetra suðvestan við Reykjanes.
Eldey er 15 kílómetra suðvestan við Reykjanes. Vísir/Egill

Þónokkrir skjálftar hafa mælst norðvestur af Eldey síðustu daga í kjölfar eldgossins sem hófst þann 8. febrúar síðastliðinn. Stærsti skjálftinn mældist 2,4 að stærð. 

Skjálftarnir hafa komið í bylgjum, fyrst sama dag og eldgosið hófst. Þeir héldu áfram daginn eftir og komu svo aftur þann 14. febrúar. Í dag hafa fleiri skjálftar mælst, stærstur þeirra 2,2 að stærð klukkan korter yfir ellefu í morgun, tvo kílómetra norðnorðvestur af Eldeyjardranga. 

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir kerfið á svæðinu ansi flókið en samt sem áður bendi ekkert til neðansjávareldgoss enn sem komið er. 

„Það er erfitt að segja til um hvort þetta sé annað en brotahreyfingar núna á þessum tímapunkti. Það hefur ekki verið vart við neinn gosóróa þarna en það er mjög erfitt að meta. En við sjáum engin merki um neðansjávareldgos þarna. Við erum ekki með eins nákvæmar GPS-mælingar þarna ofan í sjóum og sjáum ekki hvernig landslagið er að breytast eins og við sjáum á landi. Þar sjáum við millimetra og sentimetra,“ segir Einar.

Lengra úti á Reykjaneshrygg mældist stærri skjálfti þann 12. febrúar. Sá var 3,7 á stærð en að sögn Einar mælast oft stærri skjálftar þar úti. 

Jarðskjálftar síðustu vikuna í Skjálfta-Lísu Veðurstofunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×