Innlent

Fær­eyingar söfnuðu tíu milljónum fyrir Grind­víkinga

Lovísa Arnardóttir skrifar
Nýtt hraun í Grindavík.
Nýtt hraun í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Nú hefur yfir 33 milljónum króna verið úthlutað til Grindvíkinga úr neyðarsöfnun Rauða krossins. Alls hafa yfir 45 milljónir safnast og úthlutun er enn í fullum gangi. Af þeim 45 milljónum sem söfnuðust komu tíu þeirra frá Færeyjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Þar kemur einnig fram að samtals hafi 350 úthlutanir farið fram til 958 einstaklinga. Úthlutunarnefnd samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík.

Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð í Þjónustumiðstöðinni fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu á Tryggvagötu 19 í Reykjavík og á Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ.

„Neyðarsöfnun Rauða krossins hefur gengið afar vel og fengið mikinn stuðning þjóðarinnar, en auk þess hefur fjöldi erlendra aðila lagt henni lið. Þar á meðal Rauði krossinn í Færeyjum, sem safnaði 10 milljónum króna sem runnu til söfnunarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Þar er tekið fram að kostnaður við kynningu söfnunarinnar og úthlutun er innan við 1 prósent af upphæðinni sem hefur safnast, svo yfir 99 prósent af hverju framlagi fer beint í vasa Grindvíkinga í fjárhagsvanda.


Tengdar fréttir

Söfnun fyrir Grindvíkinga gengur vel

Söfnun Rauða krossins til stuðnings Grindvíkingum og til þess að efla viðbragð samtakanna við náttúruhamförunum á Reykjanesskaganum hefur gengið vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×