Körfubolti

Bræður á stóra sviðinu: Ó­sam­mála um hvor sé betri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bræðurnir Styrmir Snær og Tómas Valur Þrastarsynir eru í landsliðshópi Íslands.
Bræðurnir Styrmir Snær og Tómas Valur Þrastarsynir eru í landsliðshópi Íslands. Vísir/Vilhelm

Bræðurnir Styrmir Snær og Tómas Valur Þrastarsynir eru í landsliðshópi karla í körfubolta sem hefur nýja undankeppni í vikunni. Þeir njóta sín vel saman með landsliðinu en eru ósammála um hvor þeirra sé betri.

Styrmir hefur gert það gott með Þór Þorlákshöfn undanfarin ár og fór í sumar út í atvinnumennsku til Belgíu. Tómas Valur kom sterkur inn í lið Þórs í fyrra þrátt fyrir ungan aldur og hefur látið til sín taka. Sá yngri hefur tök á að spila sinn fyrsta landsleik er Ísland mætir Ungverjalandi í Laugardalshöll á fimmtudag.

„Þetta er búið að vera mjög gaman að æfa með þessum bestu og reyna að sýna sig,“ segir Tómas um að vera kominn inn í landsliðið.

„Þetta er skemmtilegt. Maður losnar einhvern veginn aldrei við hann. Það er gaman að sjá hann spreyta sig á móti þeim og sjá hann vaxa,“ segir eldri bróðinn Styrmir Snær.

Tómas hefur þá stigið upp og tekið við keflinu af bróður sínum eftir að hann hélt út fyrir landssteinana.

„Ég sá þetta alveg gerast, hann var orðinn svona góður í fyrra en hann er kominn með sjálfstraust núna. Þór er í góðum höndum,“ segir Styrmir en Tómas segist sakna þess að hafa hann á æfingum með Þór.

„Þetta er búið að vera mjög gaman. Auðvitað saknar maður hans og vill hafa hann á æfingum til að berja einhvern og bæta sig.“

Þeir bræður eru þá ósammála um hvor þeirra sé betri. „Ég er betri“ segir hvor um sig.

Báðir eru þeir í íslenska landsliðshópnum fyrir leik Íslands við Ungverjaland í Laugardalshöll annað kvöld og við Tyrkland ytra á sunnudag.

Viðtalið við þá Tómas og Styrmi má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×