Umfangsmikil leit fór fram í síðustu viku í að Jóni Þresti í Santry Demense almenningsgarðinum í útjaðri borgarinnar. Eftir að sporhundar fóru yfir leitarsvæðið var ákveðið svæði í skóglendi afmarkað og byrjað að grafa. Leitin skilaði þó engum árangri.

Jón Þröstur hvarf í Dyflinni í febrúar árið 2019 og hefur ekkert spurst til hans síðan. Jón Þröstur var staddur í borginni með unnustu sinni og var þar til að spila póker. Greint var frá því í síðustu viku að lögreglan í Dyflinni hefði endurnýjað ákall sitt í leit að Jóni Þresti eftir að tvær ólíkar nafnlausar ábendingar bárust um að hann hefði verið myrtur.
Tvö nafnlaus bréf voru send, annað á lögreglu og hitt á prest. Í þeim kom fram að hann hafi farið í Santry Demense garðinn til að hitta fólk til að fjármagna áhættuspil sín en að fundurinn hafi endað illa.
Í tilkynningu frá lögreglunni í Dyflinni þann 16. febrúar kom fram að leitin í garðinum hefði engu skilað og að rannsókn lögreglu væri enn opin. Lögregla biðlaði jafnframt til fólks sem mögulega hefur einhverja vitneskju um málið til að hafa samband.